Afreksstefna KSÍ 2020-2025

Aðferðafræði afreksstefnu KSÍ 2020-2025 leggur grunn fyrir afreksfólk framtíðarinnar og gerir landsliðum Íslands kleift að ná árangri á alþjóðlegum mótum á vegum UEFA og FIFA.  Nánari upplýsingar um hugmyndafræði hvers landsliðs og landsliðsstigann veitir knattspyrnusvið KSÍ.  Kynningu á afreksstefnunni og myndband um hana má sjá hér að neðan.

Prentvæn útgáfa (PDF)

Hvernig endurtökum við leikinn?

Við höfum undanfarin ár upplifað ótrúlega velgengni A landsliða okkar.  Þessi árangur hefur gefið okkur öllum mikið og endurspeglar frábært starf svo margra sem að íslenskum fótbolta koma.

Þegar ég tók til starfa sem formaður KSÍ var eitt af mínum helstu markmiðum að leita leiða til þess að styrkja og efla enn frekar starf okkar á knattspyrnusviðinu.  Við höfum breytt skipuriti okkar og sett á fót sérstakt knattspyrnusvið sem vinnur markvisst að því að bæta þjálfun og afreksstarf, bæði innan KSÍ og með stuðningi við aðildarfélögin.  Með þessu tel ég okkur vera á réttri leið í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við búum við.

Afreksstefnan sem nú er kynnt er afrakstur hugmyndavinnu sem ætlað er að hámarka getu okkar til þess að vinna úr þeim frábæra efnivið knattspyrnufólks sem við höfum hér á Íslandi. Við erum fámenn og með óblíða veðráttu en höfum metnað til þess að gera ávallt betur og stefna hærra. Við viljum að allir okkar iðkendur njóti sín en við viljum einnig ná góðum árangri. Afreksstefna KSÍ á að endurspegla þá hugmyndafræði og vera leiðarvísir í okkar starfi.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ

Knattspyrnusvið KSÍ var stofnað í apríl 2019. Knattspyrnusviðinu er ætlað að bæta faglega þáttinn í uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu og sinna hæfileikamótun.  Á meðal viðfangsefna sviðsins er að móta afreksstefnu KSÍ.

Í afreksstefnu ÍSÍ segir að sérsambönd skuli móta afreksstefnur í samræmi við leiðbeinandi ramma ÍSÍ. Afreksstefna lýsir þeirri leið sem viðkomandi sérsamband velur til að ná langtímamarkmiðum íþróttagreinarinnar.

Meginmarkmið afreksstefnu KSÍ er að skilgreina aðferðafræði knattspyrnusviðsins. Aðferðafræðin leggur grunn fyrir afreksfólk framtíðarinnar og gerir landsliðum Íslands kleift að ná árangri á alþjóðlegum mótum á vegum UEFA og FIFA.

Aðferðafræði er margslungið hugtak og í nútímaknattspyrnu breytast hlutirnir hratt. Þess vegna er mjög mikilvægt að aðferðafræði og afreksstefna KSÍ séu endurskoðuð reglulega.  Markmiðið er að meta stöðuna á hverjum tíma, en einnig að horfa til framtíðar og þeirrar þróunar sem á sér stað í heimi knattspyrnunnar.

Árangur íslenskra landsliða hefur verið stórkostlegur undanfarin ár. Markmið KSÍ er að viðhalda þessum árangri og bæta um betur. Til að það takist verður stöðugt að leita leiða til að bæta starfið og þróa það samhliða alþjóðlegri þróun innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Skilgreining á afreksfólki í íþróttum

Afreksstefna ÍSÍ skilgreinir einstaklinga og flokka sem skara fram úr í íþróttum á eftirfarandi hátt:

 • Um framúrskarandi íþróttafólk eða flokk er þá fyrst að ræða þegar einstaklingur eða flokkur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum.
 • Afreksfólk eru þeir einstaklingar/flokkar sem standast viðmið í viðkomandi íþróttagrein sem skilgreind eru af viðkomandi sérsambandi.
 • Afreksefni teljast þeir einstaklingar/flokkar sem ekki hafa náð jafn langt en taldir eru með markvissri þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu.

Afreksstefnu KSÍ og þeim skilgreiningum sem þar er stuðst við má líkja við uppbyggingu ÍSÍ:

 • A landslið Íslands = Framúrskarandi íþróttafólk
 • Yngri landslið Íslands = Afreksfólk
 • Hæfileikamótun KSÍ = Afreksefni

Til þess að geta sett afreksstefnu til framtíðar er mikilvægt að skilja fortíðina, gera sér grein fyrir gildum íslenskrar knattspyrnu og eiginleikum íslensks knattspyrnufólks. Íslenskir leikmenn búa yfir ákveðnum eiginleikum sem við höfum í huga þegar við ölum okkar landsliðsfólk.

Skipulag

Skipulag er nauðsynlegt inni á knattspyrnuvellinum. Skipulag myndast þegar 11 leikmenn sýna leikfræðilegan aga (e. tactical discipline) og eiga góð samskipti sín á milli.

Agi

Agi er grunnurinn að árangri, bæði í íþróttum og í lífinu. Agi er ekki aðeins metnaður eða hugarfar. Leikfræðilegur agi er mikilvægur eiginleiki í fari afreksmanna.

Hugrekki

Hugrekki er mikilvægt í þjálfun ungra leikmanna. Leikmaður sem veit að hann má gera mistök í leik mun reyna oftar að gera hluti inni á vellinum sem geta breytt gangi leiksins.

Ástríða

Ástríða er eldurinn sem brennur í hjarta afreksfólks. Hún er nauðsynleg til að ná langt í knattspyrnu. Ástríðan vinnur einvígi og með henni getum við unnið sigur gegn hvaða andstæðingi sem er.

Liðsheild

Liðsheild er fimmta gildið, og það sem sameinar hin gildin. Liðsheild er eftirsóknarverður eiginleiki og allir Íslendingar vilja sjá samheldin landslið sem eru skipulögð, öguð, hugrökk og ástríðufull.

Gildi íslenskrar knattspyrnu tengjast hvert öðru, vinna saman og mynda eina sterka heild. Góð íslensk landslið á að vera hægt að þekkja á þessum gildum.

Allt afreksstarf í íslenskri knattspyrnu byrjar í aðildarfélögum KSÍ. Leikmenn landsliðanna fá sitt knattspyrnulega uppeldi og grunnþjálfun hjá sínum félagsliðum. Það er m.a. þessu frábæru starfi félaganna að þakka að landsliðin okkar standast gæðakröfur knattspyrnunnar í Evrópu. Grasrótarstarf á Íslandi fyrir leikmenn á öllum aldri er á heimsmælikvarða og það er mjög mikilvægt að halda áfram að þróa og bæta grasrótina. Þetta er grunnurinn sem elur af sér landsliðsmenn framtíðarinnar.

Á Íslandi er þessi grunnur byggður á fjórum sterkum stoðum:

Aðstaða til knattspyrnuiðkunar: Undanfarna áratugi hafa knattspyrnufélögin í samvinnu við sveitarfélögin lagt grunn að frábærri aðstöðu.

Þjálfarar með þjálfararéttindi: Hlutfall þjálfara með viðeigandi menntun og réttindi er mjög hátt á Íslandi samanborið við nágrannaþjóðir okkar.

Skipulag félaganna: Skipulag er almennt mjög gott, sem byggist m.a. á metnaði þeirra sem standa að rekstri og stjórnun félaganna. Þetta á við um
stjórnir knattspyrnudeilda eða barna- og unglingaráð. Í félögunum er unnið mikið og gott sjálfboðaliðastarf.

Tímasetningar æfinga: Samvinna skóla og knattspyrnufélaganna gerir það að verkum að tímasetningar æfinga eru eins og best verður á kosið.

KSÍ er í samstarfi við aðildarfélög og aðra aðila um ýmis verkefni sem öll miða að því að styrkja grasrótina enn frekar. Eitt af þessum verkefnum er samstarf við HR varðandi mælingar á líkamlegu atgervi og á sálfræðilegum þáttum hjá öllum leikmönnum á landinu á eldra ári í 3. flokki.

Ljóst er að þetta verkefni er einsdæmi í heiminum. Markmiðið er að hjálpa þjálfurum að vinna markvisst með líkamsþjálfun leikmanna og útbúa einstaklingsbundnar áætlanir. Með þessari vinnu verður til gagnagrunnur með upplýsingum um það hvaða eiginleikum bestu leikmennirnir búa yfir. Mögulegt verður að bera saman lið, árganga, einstaklinga og í framhaldinu gera leikmenn meðvitaða um þeirra styrkleika og það sem betur má fara. Unnið er úr niðurstöðum á tveggja ára fresti og verkefnið endurskoðað á sama tíma.

Afreksstarf í félögunum

Knattspyrnusvið KSÍ leggur áherslu á að félögin styrki sitt afreksstarf, en þó án þess að það bitni á grasrótinni og hlutverki þeirra gagnvart almennu íþróttastarfi barna og unglinga. Afreksstarf er einstakt með sitt sérkenni í hverju félagi og mikilvægt er að mótuð sé afreksstefna sem unnið er eftir.
Nýta má þætti úr afreksstefnu KSÍ sem fyrirmynd þegar afreksstefna félags er mótuð. Afreksstarf felst einfaldlega í því að bestu einstaklingarnir fái bestu mögulega þjálfun á öllum sviðum. Þetta eykur möguleikann á að þessir leikmenn nái að hámarka sína hæfileika í framtíðinni. Afreksstefna félaga er til þess fallin að styrkja stoðir félaganna, m.a. fjárhagslega og þegar horft er til ímyndar og metnaðar í starfi þeirra.

Vinna þarf skýrar starfslýsingar fyrir yfirþjálfara yngri flokka og afreksþjálfara. Félögin (í samvinnu við KSÍ) þurfa að styðja sína þjálfara í að bæta við sig þjálfaragráðum og að auka sína þekkingu í þjálfunarfræðum. Getuskipta þarf æfingum og bjóða upp á aukaæfingar og setja upp einstaklingsbundnar áætlanir fyrir þá einstaklinga sem skara fram úr. Afreksleikmenn ættu að spila upp fyrir sinn aldursflokk, en leikjaálag þarf jafnframt að vera í jafnvægi við hina einstaklingsbundnu áætlun.

Markmið knattspyrnusviðs KSÍ eru að mörgu leyti í samræmi við markmiðin hjá grasrótinni og afreksstarfi félaganna. Næstu ár verður gífurlega mikilvægt að efla allt starf sem viðkemur gagnasöfnun og rafrænni aðstoð, úrvinnslu gagna og hagnýtingu þeirra. Afreksstarf félaganna er það starf sem getur skilað mesta árangrinum á næstu árum. Þegar knattspyrnusvið KSÍ fær svo afreksefnin eða afreksfólkið til sín er mikilvægt að vinna markvisst og skýrt eftir afreksstefnu KSÍ.

 • Þeim mun betri leikmenn sem koma úr afreksstarfi félaganna, þeim mun líklegri eru þeir til að ná langt á sínum ferli og verða atvinnumenn hjá erlendum félagsliðum.
 • Því fleiri sem atvinnumennirnir eru, þeim mun betri verða landsliðin okkar.
 • Því betri sem landsliðin okkar verða, þeim mun betri árangri ná þau á alþjóðlegum vettvangi.
 • Þeim mun betri sem árangur landsliðanna okkar verður, þeim mun sýnilegri verður íslensk knattspyrna.
 • Þeim mun sýnilegri sem íslensk knattspyrna og íslenskir leikmenn verða, þeim mun líklegra er að erlend félagslið líti til Íslands í leit að leikmönnum, sem síðan styrkir rekstrargrundvöll íslenskra félaga og gerir þeim kleift að bæta sitt afreksstarf enn frekar.

Efnilegir leikmenn sem spila fullorðins fótbolta í íslensku deildunum frá unga aldri er eitt af okkar sterkustu vopnum.

Rafræna sviðið og mælingar

Það svið knattspyrnunnar sem íslensk knattspyrna getur bætt sig hvað mest á er rafræna sviðið. Í nútímaknattspyrnu er allt mælt, skoðað og metið. Félagslið og landslið í Evrópu þjálfa ekki bara leikmenn sína á knattspyrnuvellinum heldur er þjálfun orðin heildræn (holistic). Undir þessa heildrænu þjálfun falla hlutir eins og leikgreining, miðlæg gagnasöfnun, myndbandsupptökur, hlaupatölur, o.s.frv. Það er markmið KSÍ að styrkja rafrænt samstarf við aðildarfélögin á næstu árum.

Þess má geta að KSÍ hefur frá árinu 2014 mælt leikmenn í yngri landsliðum kvenna og er verkefnið kvennamegin því vel á veg komið. Segja má að um sé að ræða framhald og stækkun á því verkefni með því að hefja einnig mælingar karlamegin. Allar niðurstöður eru skráðar og mynda þannig gagnagrunn og viðmið til framtíðar. Þetta mun jafnframt gefa okkur mikilvægan samanburð á því hvar við stöndum í samanburði við aðrar þjóðir.

Árið 2025 er ætlunin að eiga mikilvægan gagnagrunn með upplýsingum um íslenska leikmenn. Eftir nokkurra ára gagnasöfnun verða fyrstu leikmennirnir búnir að fara í gegnum allt starfið, frá Hæfileikamótun til U21 liða. Með þessum gagnagrunni getum við greint okkar starf, séð hvar við höfum bætt okkur og hvar við þurfum að gera betur.

Á teikniborðinu eru ýmis önnur verkefni, s.s. fastar myndbandsupptökuvélar á keppnisvöllum félaganna, myndbandsgrunnur og efnisveita, sameiginlegur gagnagrunnur fyrir leikgreiningu, sameiginlegur gagnagrunnur og kerfi fyrir GPS mælingar og gögn fyrir einstaklingsbundnar þjálfunaráætlanir.

Fyrirkomulag móta

Til þess að bæta afreksstarf knattspyrnunnar á Íslandi er nauðsynlegt að mótafyrirkomulag sé í stöðugu endurmati. Skoða þarf nýjar hugmyndir í mótamálum, t.d.fyrirkomulag móta í yngri flokkum, breyttar leikreglur í yngstu flokkunum, fleiri leikmínútur fyrir afreksfólk og afreksefni, sérstaka „Hæfileikakeppni“ fyrir bestu lið landsins (afreksfólk og afreksefni) og varaliðskeppni, svo eitthvað sé nefnt.

Heilbrigði og heilsufar

KSÍ er skylt að senda alla leikmenn sem spila keppnisleik fyrir eitt af landsliðum Íslands í árlega heilsufarsskoðun. KSÍ fær leikheimild frá UEFA fyrir hvern og einn leikmann eftir að skoðun þessi hefur verið framkvæmd. Þeir leikmenn sem hafa ekki gengist undir heilsufarsskoðun fá ekki leikheimild
og geta þar af leiðandi ekki tekið þátt í verkefnum landsliða. Heilsufarsskoðunin er framkvæmd af lækna- og sjúkrateymi KSÍ og inniheldur hjartalínurit (12 punkta), könnun á sjúkrasögu leikmanns (almenn sjúkrasaga), könnun á ættarsögu (sjúkdómar hjá nánustu fjölskyldumeðlimum) og almenna læknisskoðun (nýleg meiðsli, stoðkerfið, ofnæmi, hæð, þyngd, o.fl.).

Þjálfum saman

Þjálfum saman er verkefni sem sett var á laggirnar haustið 2019 þar sem félögin og KSÍ vinna saman. KSÍ velur afrekshópa af höfuðborgarsvæðinu (16 útileikmenn og 2 markmenn) og raðar upp mánaðarlegum æfingum fyrir 3 hópa (15 æfingar samtals).  Þjálfarar KSÍ og aðildarfélags funda saman fyrir og eftir æfingu. Æfingarnar fara fram hjá aðildarfélögunum og félagið sem heldur æfinguna velur 4 útileikmenn og 1 markmann til viðbótar. Bestu leikmennirnir fá þannig fleiri æfingar þar sem allur hraði er meiri (stöðufærslur, sendingar, o.s.frv.).  Markmiðið er að þróa erkefnið frekar á næstu árum.

Afreksæfingar á landsbyggðinni

Eitt af markmiðum KSÍ er að auka sýnileika utan höfuðborgarsvæðisins með afreksæfingum, svokölluðum landshlutaæfingum, og um leið auka samvinnu,
aðstoð og tengingu við aðildarfélög á landsbyggðinni. Landshlutaæfingarnar fjölga æfingum á vegum KSÍ og er ætlunin að þróa þetta verkefni á næstu árum. Í landshlutaæfingum er landinu skipt upp í 5 landshluta (Reykjavík, Vestmannaeyjar, Austurland, Norðurland og Vesturland) og æft reglulega yfir veturinn í hverjum landshluta, auk þess sem afskekktari svæði eru heimsótt sérstaklega. Alls fara fram tæplega 50 æfingar yfir veturinn þar sem 16–20 leikmenn taka þátt.

Hæfileikamótun


Árið 2014 fór KSÍ fyrst af stað með verkefni sem fékk nafnið Hæfileikamótun KSÍ. Markmiðið með verkefninu er að skoða eins marga leikmenn á eldra ári í 4. flokki (14 ára) og mögulegt er til að gera val fyrir U15 karla og kvenna markvissara. Í Hæfileikamótuninni er farið í gegnum tvær umferðir og um er að ræða um 50 viðburði ár hvert. Í fyrri umferð fara samtals um 450 leikmenn (250 strákar og 200 stelpur) og í seinni umferðinni taka þátt um 330 leikmenn (180 strákar og 150 stelpur).

Í fyrri umferðinni sjá þjálfarar félaganna um að tilnefna leikmenn, en í seinni umferðinni er það í höndum yfirmanns Hæfileikamótunar KSÍ að tilnefna leikmenn í samvinnu við þjálfara félaganna.

Lokapunktur í Hæfileikamótun hvers árs er svokallað Hæfileikamót. Leikmenn sem eru valdir á Hæfileikamótið eru sterkustu leikmenn árgangsins, byggt á frammistöðu þeirra á landshlutaæfingum og í leikjum með sínum félögum. Fyrirkomulagið er þannig að yfirmaður í Hæfileikamótun velur um 60 manna hóp sem hann skiptir upp í 4 lið. Þessi 4 lið spila innbyrðis, alls 3 leikir á lið og 6 leikir í heildina. Að loknu Hæfileikamóti velur U15 landsliðsþjálfari 30 manna úrtakshóp fyrir U15 landslið Íslands sem æfir svo saman.

Samhliða fyrrgreindum afreksæfingum er fylgst með leikmönnum í leikjum með félögum sínum.

Æfingar yngri landsliða

Veturinn 2019-2020 var aðferðafræðinni við æfingar yngri landsliða KSÍ breytt. Í samvinnu við skólana hóf KSÍ æfingar á virkum dögum. Kostirnir við að æfa á þennan hátt eru meðal annars betri æfingatímar og meiri tími með leikmönnum. Leikmenn eru einnig sjaldnar í burtu frá félögunum og geta spilað leiki með þeim um helgar. Öll umgjörð er eins og best verður á kosið og þjálfarar í fullu starfi hjá KSÍ geta þjálfað meira og betur.

Á teikniborðinu er jafnframt næringarfræðsla, íþróttasálfræði, kennsla eða aðstoð við heimanám á milli æfinga, og endurgjöf til leikmanna með myndbandsupptökum af æfingum.

Fjölgun leikja yngri landsliða

Eitt stærsta verkefni knattspyrnusviðs KSÍ á næstu árum er að fjölga leikjum yngri landsliða KSÍ og koma á laggirnar U21 landsliði kvenna. Landsliðin og þróun þeirra er hluti af kjarnastarfsemi KSÍ. Yngri landsliðin leggja grunninn að góðum A landsliðum. Til þess að eiga möguleika á að ná árangri og komast á stórmót A landsliða karla og kvenna þarf að fjárfesta í grunnstoðunum. Grunnurinn er alltaf afreksefnin og afreksfólkið. Með fleiri leikjum og faglegri umgjörð aukast líkur okkar á árangri í framtíðinni. Eitt af okkar verkefnum er að koma á fót og viðhalda U21/U23 landsliði kvenna. Vonir standa tilað UEFA skipuleggi keppni frá og með 2022 fyrir U21 eða U23 lið kvenna og markmið KSÍ er að vera tilbúið þegar til þess kemur.

Þjálfarar

Markmið knattspyrnusviðs KSÍ í þjálfaramálum er að allir landsliðsþjálfarar sem eru í fullu starfi hjá KSÍ þurfa að hafa eða vera byrjaðir á Pro Licence þjálfaragráðu. Í reglugerð KSÍ um menntun þjálfara og í leyfisreglugerð KSÍ er tiltekið hvaða þjálfaragráðu þarf að hafa til að mega þjálfa tiltekna aldursflokka.
Stefnan er ávallt sú að allir þjálfarar landsins séu að lágmarki með réttindi samkvæmt leyfiskerfi og reglugerðum KSÍ.

Fagteymi

Fagteymi er það fólk sem vinnur með landsliðum Íslands (þjálfara-, sjúkrateymi og aðrir). Stefnan er ávallt sú að fagteymið sé þannig skipað að starf og utanumhald landsliða Íslands sé í hæsta gæðaflokki og standist samanburð við aðrar knattspyrnuþjóðir.

Aðstaða

Heimaleikir A landsliða Íslands fara fram á Laugardalsvelli. A landsliðin fá einnig hluta æfinga sinna á sama velli. Aðrir leikir og æfingar landsliða fara fram á keppnisvöllum eða æfingavöllum aðildarfélaganna.  Stærsta verkefni KSÍ og knattspyrnuhreyfingarinnar til lengri tíma á sviði mannvirkja og aðstöðu er að tryggja bestu keppnis- og æfingaaðstöðu landsliðanna okkar. Nýr og endurbættur þjóðarleikvangur og æfingasetur verða að uppfylla væntingar allra hagsmunaaðila og standast kröfur í alþjóðlegum samanburði. 

Það er ljóst að nýr og endurbyggður þjóðarleikvangur er nauðsynlegur til þess að við getum fylgt eftir þeim frábæra árangri sem við höfum náð undanfarin ár. Slíkur leikvangur mun jafnframt þjóna félagsliðum í bikarkeppnum og Evrópumótum.  Við verðum að horfa til næstu áratuga og sýna þann stórhug
sem við sýndum þegar Laugardalsvöllur var byggður fyrir rúmum 60 árum
síðan. Í því samhengi verðum við að átta okkur á tengslum afreksstarfs við grasrótarstarf, sem er okkar samfélagi svo dýrmætt.  Sterkar fyrirmyndir og góður árangur landsliðanna okkar hvetur unga iðkendur áfram og styður við okkar öfluga starf sem skilar sér m.a. í betri lýðheilsu, og hefur einnig verið frábær landkynning.

Ein af okkar stærstu áskorunum er að taka réttar ákvarðanir fyrir einstaklinginn og hjálpa þar með til við að búa til framtíðarlandsliðsmenn A liðanna okkar. Hugmyndafræðin er ólík eftir aldursflokkum og einstaklingsbundin vegna þess að við viljum að bestu leikmennirnir fái einstaklingsbundna þjálfun með langtímahagsmuni hvers leikmanns í huga.

Hugmyndafræði yngri landsliðanna tekur við þegar hæfileikamótuninni lýkur. Það er að ýmsu að hyggja þegar leikmenn koma inn í landsliðsumhverfi. Ungur einstaklingur á eftir að taka mörg skref áður en hann verður leikmaður í A landsliði. Öll landsliðin vinna eftir afreksstefnunni en hafa þó hvert um sig sína hugmyndafræði þar sem m.a. kemur fram leikskipulag og leikstíll liðsins, hlutverk liðsins í heild sinni, hlutverk hverrar línu og hverrar stöðu. Einnig er fjallað um hvaða gildum er unnið eftir á mismunandi aldri. Það er ekki síður mikilvægt að vera með á hreinu hvað liðið og einstaklingurinn þurfa að bæta frá þrepinu á undan til að klífa landsliðsstigann.

Eru úrslit leikja mikilvæg?

Svarið við þessari spurningu er stór hluti af hugmyndafræði yngri landsliðanna. Einfalda og rétta svarið er að því yngri sem liðin eru því mikilvægara er að kenna leikmönnunum leikinn og ala upp hugrekki og jákvæð gildi. Það er mikilvægt að leikmenn þori að gera mistök og þori að spila okkar jákvæða leik á móti sterkari andstæðingum. Með því að gefa ungum leikmönnum frelsi til að gera mistök erum við að gefa þeim færi á að læra og verða betri.

Landsliðsstiginn

Vegvísir sem sýnir leið leikmanns frá U15 landsliði og upp í A landslið. Landsliðsmenn þurfa að kynnast umgjörð landsliða, læra á hana og kunna að nota hana til að hámarka frammistöðu sína og auka þannig líkurnar á því að ná að taka öll skrefin sem til þarf upp í A landslið. Landsliðsstiginn er í fjórum þrepum og er þeim lýst hér að neðan:

U15 - Kynna: 

Leikmenn kynnast því hvað það er að vera landsliðsmaður og hluti af landsliði og kynnast umgjörðinni, vinnulaginu og gildunum.

U17 - Læra: 

Leikmenn læra að vera landsliðsmenn og hluti af landsliði. Þeir læra á verklagið, nýta umgjörðina, gildin og að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.

U19 - Framkvæma: 

Leikmenn þekkja hvað það er að vera landsliðsmenn og hluti af landsliði, þekkja umgjörðina, vinnulagið og gildin og nýta þessa þætti til að framkvæma það sem til er ætlast af þeim innan og utan vallar.

U21 - Frammistaða: 

Leikmenn nota þau þrep sem þeir hafa þegar klifið til að sýna hámarksframmistöðu sem landsliðsmenn og hluti af landsliði, og nýta frammistöðuna og þá reynslu sem þeir hafa öðlast til að taka skrefið upp í A landslið.

Nánari upplýsingar um hugmyndafræði hvers landsliðs og landsliðsstigann veitir knattspyrnusvið KSÍ.

Hvernig mælum við árangurinn?

Ágæti lesandi. 

Hér hefur verið stiklað á stóru um afreksstefnu KSÍ 2020–2025, markmið, helstu verkefni og hugmyndafræði. En hvernig mælum við árangurinn? Hvernig vitum við hvort við séum á réttri leið?

Settar hafa verið upp mælistikur sem verða skoðaðar með reglulegu millibili, þar sem við stöldrum við og metum árangurinn og stöðuna hverju sinni. Við verðum að mæla árangurinn reglulega til að vita hvort við séum að taka réttu skrefin og hvort við eigum að halda okkar striki eða aðlaga okkur að breyttum aðstæðum, ef við á. 

Þeir þættir sem við horfum til þegar við metum árangurinn eru ýmsir, bæði hlutlægir og huglægir. Auk mælikvarða eins og árangurs A landsliða og stöðu þeirra á styrkleikalista FIFA, þá horfum við líka til mælikvarða eins og þróunar leikmanns hjá félagsliði, fjölda atvinnumanna og annarra þátta. Þá hefur KSÍ einnig sett árangurstengd markmið fyrir yngri landsliðin. Þar viljum við hið minnsta halda okkur í 2. styrkleikaflokki með áframhaldandi góðum árangri í undankeppnum og milliriðlum og sæti í lokakeppnum. Til lengri tíma munum við einnig skoða hversu margir leikmenn skila sér í A landsliðin. Með markvissri gagnasöfnun og mælingum á þessum sömu leikmönnum getum við séð þróun þeirra og framför á leiðinni upp landsliðsstigann. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur til lengri tíma að geta, með mælingum, séð tiltölulega snemma hvaða leikmenn eru líklegastir til að ná í afreksflokk og nýta einstaklingsbundna þjálfun til að hámarka líkurnar á því að leikmaðurinn nái alla leið upp í efsta þrep landsliðsstigans. Á Íslandi eru kjöraðstæður til að greina og ná til efnilegra leikmanna og veita þeim þann stuðning sem þeir þurfa til að verða afreksleikmenn. Við viljum jafnframt að leikmennirnir og landsliðin okkar endurspegli okkar hugmyndafræði og gildi íslenskrar knattspyrnu. Við viljum byggja á aga og skipulagi, ástríðu og hugrekki, og síðast en ekki síst liðsheild.

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná árangri í góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila – aðildarfélög KSÍ og forsvarsmenn þeirra,
þjálfara og leikmenn og aðra fulltrúa og stuðningsaðila íslenskrar knattspyrnu. Liðsheildin er eitt af helstu gildum íslenskrar knattspyrnu, og liðsheildin er einmitt það gildi sem bindur okkur öll saman.

Arnar Þór Viðarsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ