Reglugerðarbreytingar 2018

 

Yfirlit yfir reglugerðarbreytingar 2018


Dreifibréf 4. janúar 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 18. desember 2017 samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um deildarbikarkeppni karla. Sjá dreifibréf.

Um var að ræða breytingar á fyrirkomulagi í úrslitakeppni A-deildar í deildarbikarkeppni karla. Áður gerði reglugerðin ráð fyrir að átta lið tækju þátt í úrslitakeppni A-deildar. Eftir samþykktar breytingar taka fjögur lið þátt í úrslitakeppni A-deildar. Þau fjögur lið sem enda í efsta sæti í hverjum riðli, R1, R2, R3 og R4, leika í undanúrslitum. Sigurvegarar í undanúrslitum A-deildar leika til úrslita.


Dreifibréf 4. janúar 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 18. desember 2017 samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga. Sjá dreifibréf

Um var að ræða breytingar til samræmis við gildandi leiðbeiningar og breyttar reglugerðir frá UEFA og FIFA í málaflokki knattspyrnuleikvanga. Breytingar þessar kváðu á um að prófanir á knattspyrnugrasi keppnisvalla hér á landi skuli fari fram í samræmi við gildandi staðla alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA þar um. Í gæðaáætlun FIFA fyrir knattspyrnugras er miðað við að bæði FIFA Quality Pro og FIFA Quality gildi fyrir keppnisvelli. Evrópska knattspyrnusambandið UEFA gerir hins vegar þá kröfu að leikir á þeirra vegum fari fram á völlum sem uppfylla FIFA quality Pro. Munurinn er sá að FIFA Quality Pro er ætlaður fyrir Professional games og minni notkun (20 klst., eða minna, á viku) en FIFA Quality er ætlaður fyrir velli með mikla notkun (40 til 60 klst. á viku). Reglubundnar prófanir skulu fara fram á árs fresti fyrir FIFA Quality Pro en á þriggja ára fresti fyrir FIFA Quality samkvæmt stöðlunum. Um er að ræða prófanir sem staðfesta að grasið uppfylli gerðar kröfur. Gerir reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga nú ráð fyrir að reglubundnar prófanir á knattspyrnugrösum á leikvöllum í A, B og C flokki hér á landi skuli fara fram í samræmi við ákvæði FIFA staðlanna. KSÍ getur þó, ef ástæða þykir, krafist þess að prófanir fari fram oftar en FIFA staðlarnir segja til um en þó ekki oftar en á árs fresti.


Dreifibréf 27. mars 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 15. mars 2018 samþykkti stjórn KSÍ breytingar á lögum KSÍ og breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Sjá dreifibréf

Um var að ræða þrenns konar breytingar. Nýju bráðabirgðaákvæði var bætt við í lög KSÍ vegna samþykktar ársþings KSÍ 2018 á tillögu Reynir S. um fjölgun á félögum í 3. deild karla keppnistímabilið 2019 úr 10 í 12.

Þá var samþykkt að halda í gildi bráðbirgðaákvæði sem heimilar félögum í 2. flokki kvenna að hafa þrjá eldri leikmenn í hverjum leik, sem eru 20-22 ára á almanaksárinu (konur fæddar 1996, 1997 og 1998), og léku ekki með meistaraflokki félagsins í næsta leik á undan. Loks var  samþykkt samræma ákvæði um 4. flokk kvenna og 4. flokk karla í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Nú er tiltekið í ákvæði 35.1.1. (4. flokkur kvenna) að riðlar A, B og C eru fyrir Suðurland, Vesturland og Vestfirði líkt og í samhljóma ákvæði um 4. flokk karla. Þá er nú tiltekið í ákvæði 35.1.2. (4. flokkur kvenna)  að þau tvö lið sem verða neðst í B riðli falla næsta keppnisár niður í C riðil en tvö efstu liðin í C riðli taka sæti þeirra í B riðli, líkt og í samhljóma ákvæði um 4. flokk karla.


Dreifibréf 24. apríl 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 13. apríl 2018 samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Sjá dreifibréf:

Um var að ræða breytingar á 9. gr. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Samþykkt var að halda í gildi bráðabirgðaákvæði um hvaða viðurlögum skuli beita við brotum á grein 9.2. (A- og B leikmannalistar). Þá var um að ræða breytingu á grein 9.3. Nú er tiltekið í ákvæðinu að í keppni 7, 8 og 11 manna liða er varamönnum og liðsstjórn heimilt að sitja á varamannabekk. Áður var aðeins kveðið á um fjölda varamanna og fjölda einstaklinga í liðsstjórn í ákvæðinu. Það er, hversu margir varamenn og einstaklingar í liðsstjórn mættu vera skráðir á leikskýrslu.


Dreifibréf 23. maí 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 17. maí 2018 var samþykkt að halda fyrirkomulagi á greiðslu ferðaþátttökugjalds óbreyttu, skv. reglugerð KSÍ um ferðaþátttökugjald. Nettókostnaður vegna ferðaþátttökugjalds umfram kr. 75.000,- á lið er greiddur af KSÍ: Sjá dreifibréf. 


Dreifibréf 3. október 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 25. september 2018 samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Sjá dreifibréf.

Um var að ræða breytingar til samræmis við tillögu sem barst stjórn KSÍ frá Íslenskum Toppfótbolta (ÍTF) þann 30. júlí 2018. Tillaga ÍTF var þess efnis að nýttir verði allir þeir dagar, sem heimild er fyrir, hvað síðari félagaskiptagluggann varðar. Það er, að síðari félagaskiptaglugginn verði opinn fjórar vikur í stað tveggja og verði opinn frá byrjun til enda júlí ár hvert. Þá lagði ÍTF til að fyrri félagaskiptaglugginn standi óbreyttur (21. febrúar til 15. maí) en öll heimild hefur verið fullnýtt hvað þann glugga varðar (12 vikur). Breyting þessi var samþykkt að loknu umsagnarferli hjá aðildarfélögum KSÍ.


Dreifibréf 6. nóvember 2018

Með samþykki stjórnar KSÍ 31. október 2018 voru samþykktar breytingar á leyfisreglugerð KSÍ. Sjá dreifibréf.

Um var að ræða talsverðar breytingar sem urðu á leyfisreglugerð KSÍ vegna breytinga sem orðið hafa á leyfisreglugerð UEFA. Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna í dreifibréfi nr. 7/2018.


Dreifibréf 30. nóvember 2018

Á fundi stjórnar KSÍ 22. nóvember sl. samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn. Sjá dreifibréf.

Annars  vegar var um að ræða breytingu á  ákvæði 13.4. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Nú er tiltekið í ákvæðinu að þátttökutilkynningar skulu berast skrifstofu KSÍ á sérstökum eyðublöðum fyrir 10. janúar ár hvert. Áður kvað svo á um að þessi tilteknu eyðublöð skyldu berast skrifstofu KSÍ fyrir 20. janúar ár hvert. Hins vegar var um að ræða breytingu á grein 4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn. Áður kvað svo á um, í grein 4.6., að starfstíma deildardómara ljúki ekki síðar en í lok þess árs, sem hann verður fimmtugur. Nú hefur ákvæði 4.6. verið fellt úr reglugerðinni. Í greinargerð frá dómaranefnd KSÍ kemur fram að á Norðurlöndunum hafa þessar aldurstakmarkanir verið felldar niður. Í stað aldurstakmarkana eru notuð stöðluð þrekpróf frá FIFA sem dómararnir þurfa að standast.