• fim. 19. mar. 2009
  • Landslið

Ísland - Færeyjar á sunnudaginn kl. 14:00

Frá vináttulandsleik Íslands og Færeyja í Kórnum í mars 2008.  Ísland fór með sigur af hólmi, 3-0.
Island-Fareyjar_i_Kornum_2008

Sunnudaginn 22. mars kl. 14:00 mætast Ísland og Færeyjar í vináttulandsleik og verður leikið í knattspyrnuhúsinu í Kórnum í Kópavogi.  Þetta er annar A landsleikur karla sem leikinn er í Kórnum en á síðasta ári mættust þessar sömu þjóðir einmitt á sama stað í vináttulandsleik.  Þá höfðu Íslendingar betur með þremur mörkum gegn engu.

Leikur Íslendinga og Færeyinga á sunnudaginn er sá 22. í röðinni í A-landsleik karla. Íslendingar hafa unnið tuttugu leiki en einu sinni hefur orðið jafntefli.

Ísland og Færeyjar mættust fyrst í vináttulandsleik 12. júlí árið 1972 og var leikið á Laugardalsvelli. Íslendingar sigruðu í þeim leik með þremur mörkum gegn engu. Mörk Íslands gerðu þeir Tómas Pálsson og Eyleifur Hafsteinsson og eitt mark var sjálfsmark. Einu sinni hafa þjóðirnar gert jafntefli en vináttulandsleikur þjóðanna endaði með markalausu jafntefli árið 1985 þegar leikið var í Þórshöfn. Markatala í leikjunum er 67-11 Íslandi í vil.

Báðar þjóðir tefla fram frekar óreyndum hópum, í íslenska hópnum eru 8 nýliðar og í þeim færeyska eru sex nýliðar.

Miðasala verður í Kórnum á leikdag og hefst kl. 12:00 eða tveimur tímum fyrir leik.  Miðaverði er stillt mjög í hóf, 1.000 krónur kostar fyrir fullorðna 17 ára og eldri en frítt er inn fyrir börn 16 ára og yngri.