• mið. 14. apr. 2010
  • Dómaramál
  • Pistlar

Um rangstöðu

Gylfi Orrason
Gylfi_Orrason

Knattspyrna er leikur sem gengur út á það að skora mörk þar sem annað liðið nýtir tæknilega hæfileika sína til þess að sigrast á hinu. Sóknarliðið nýtir sína hæfileika til þess að sækja og varnarliðið sína hæfileika til þess að verjast. Ef sókninni tekst hins vegar að brjótast í gegnum vörnina og skora mark þá er það ekki í verkahring dómarateymisins að koma varnarliðinu til bjargar með því að dæma markið af vegna rangstöðu leikmanns sem tók engan þátt í sóknaratlögunni. Það eitt að vera í rangstöðu er ekki leikbrot – meta verður hvort rangstaðan telst virk eða óvirk (“active or passive”).

Þróun rangstöðureglunnar

Áður en við skoðum hvernig skilgreina beri hvort rangstaða teljist virk eða óvirk skulum við grípa aðeins niður í ágrip af sögu rangstöðureglunnar.

1863

Í fyrstu útgáfu knattspyrnulaganna, sem “The FA” (Enska knattspyrnusambandið) gaf út, segir að leikmaður sé rangstæður ef hann er framan við boltann. Þessi regla, sem þótti stríða gegn knattspyrnu er byggir upp á samspili, var hins vegar aldrei tekin upp í Skotlandi og þess vegna fengu Skotar á sig það orð á sínum tíma að leika vel saman.

1866

Leikmaður telst nú réttstæður ef þrír varnarmenn eru á milli hans og marksins þegar knettinum er leikið.  Athugið að einn af þessum þremur varnarmönnum er oftast markvörðurinn.

1873

Rangstaða skal nú metin á því augnabliki sem knettinum er leikið.

1903

Hugmyndin um “að hafa áhrif á leikinn” tekur sér bólfestu.

1907

Leikmaður getur einungis talist rangstæður ef hann er á vallarhelmingi andstæðinganna.

1921

Leikmaður telst ekki vera rangstæður fái hann knöttinn beint úr innkasti.

1925

Vaxandi notkun “rangstöðugildrunnar” leiðir til breytingar á reglunni. Leikmaður telst nú réttstæður ef tveir leikmenn (í stað þriggja áður) eru á milli hans og marksins þegar knettinum er spyrnt.  Munið að annar þessara tveggja leikmanna er oftast markvörðurinn, en þó ekki alltaf.

1926 – 1989

Engar breytingar gerðar á rangstöðureglunni allan þennan tíma – ótrúlegt !

1990

Leikmaður telst nú réttstæður ef hann er samsíða næst aftasta varnarmanni á þeirri stundu sem knettinum er spyrnt.  Ekki gleyma að annar þessara varnarmanna er oftast markvörðurinn.

1995

Smávægileg breyting gerð á orðalagi rangstöðureglunnar, en í raun stór í framkvæmd hennar, í þá veru að leikmaður skal nú einungis talinn vera í refsiverðri rangstöðu ef hann “hagnast á stöðu sinni” í stað þess “að reyna að hagnast á stöðu sinni” áður.

2005

Leikmaður telst nú eingöngu í refsiverðri rangstöðu ef einhver hluti höfuðs, búks eða fóta hans er nær marklínu mótherjanna en bæði knötturinn og næst aftasti mótherji (munið eftir markverðinum) á þeirri stundu sem knettinum er spyrnt (þ.e. einhver þeirra hluta líkamans sem hann getur löglega snert knöttinn með). Hugtökin “að hafa áhrif á leikinn, trufla mótherja og hagnast á stöðu sinni” eru líka skilgreind nánar. Leikmaður telst þannig eingöngu hafa áhrif á leikinn ef hann “leikur knettinum eða snertir hann eftir sendingu eða snertingu frá samherja”. Að gefnu tilefni var þessari skilgreiningu síðan bætt við: “Refsa má leikmanni, sem er í rangstöðu, áður en hann leikur knettinum eða snertir hann ef, að mati dómarans, enginn réttstæður samherja hans á möguleika á að leika knettinum. Ennfremur að ef mótherji berst í spilið þannig að dómarinn telji hættu vera á líkamlegri snertingu milli leikmannanna, skal dæma leikmanninn rangstæðan fyrir að trufla andstæðing”.

Þessari síðustu breytingu á rangstöðureglunni árið 2005 var í raun ætlað að breyta vægi hennar svo mikið í hag sóknarmanna að það myndi marka endalok “rangstöðugildrunnar”.

Hvað er “refsiverð rangstaða”?

En snúum okkur aftur að efninu, þ.e. hvernig skilgreina beri refsiverða (virka) rangstöðu. Um það segir í 11. grein knattspyrnulaganna:

Það er ekki leikbrot í sjálfu sér að vera í rangstöðu”. Dæmi 1 Dæmi 2 Dæmi 3

Þar segir ennfremur um refsiverða rangstöðu:

Leikmanni í rangstöðu er því aðeins refsað að hann taki virkan þátt í leiknum að mati dómarans á þeirri stundu sem knötturinn snertir, eða er leikið af, samherja með því að:

Í “Túlkun knattspyrnulaganna og leiðbeiningum til dómara” er refsiverð (virk) rangstaða síðan skilgreind nánar þannig:

Sentimetrar og brotabrot úr sekúndu

En hvernig eiga aðstoðardómararnir (Ad) að framfylgja þessum flóknu fyrirmælum? Ferill ákvörðunartöku þeirra er einhvern veginn á þessa leið:

  • Ad eru stöðugt á tánum gangvart leikmönnum í rangstöðu.
  • Sé leikmaður í rangstöðu ber Ad fyrst að “bíða og sjá” hvort hinn rangstæði leikmaður leiki knettinum eða snerti hann.
  • Leiki hinn rangstæði leikmaður knettinum eða snerti hann þá gefur Ad rangstöðu strax til kynna með því að lyfta flaggi sínu.
  • Snerti hinn rangstæði leikmaður hins vegar ekki knöttinn skoðar Ad næst hvort viðkomandi leikmaður hafi “truflað mótherja”. Var leikmaðurinn í sjón- eða hreyfingarlínu mótherjans, var hætta á líkamlegri snertingu hins rangstæða við mótherja o.s.frv.? Hafi svo verið gefur Ad því næst rangstöðu til kynna með því að lyfta flaggi sínu.
  • Hafi hins vegar svo ekki verið skoðar Ad að síðustu hvort hinn rangstæði leikmaður hafi “hagnast á stöðu sinni”. Lék leikmaðurinn eða snerti knött sem hrökk til hans af markstöng, þverslá eða mótherja eftir að hafa verið í rangstöðu? Hafi svo verið gefur Ad því næst til kynna rangstöðu með því að lyfta flaggi sínu, annars ekki.

Eins og ljóst má vera af lestri þessarar greinar þá hefur Alþjóðanefnd FIFA markvisst unnið að því í áranna rás að þrengja skilgreininguna á því hvað telst vera “virk” rangstaða. Þessar breytingar hafa hins vegar orðið til þess að það verður stöðugt erfiðara fyrir aðstoðardómarana að sinna störfum sínum því núorðið skipta sentimetrar og brotabrot úr sekúndu sköpum.

Hlutverk íþróttafréttamanna

Hlutverk íþróttafréttamanna við að upplýsa almenning um hvort dómarateymið sé að dæma samkvæmt fyrirmælum knattspyrnulaganna verður seint ofmetið. Þeir sem eru starfi sínu vaxnir falla ekki í þá gryfju að eyða öllu sínu púðri í hið neikvæða þegar talið berst að dómgæslunni, þó þrætueplin séu vissulega næring “gulu pressunnar”. Sú skylda íþróttafréttamannanna að upplýsa áhorfendur/áheyrendur/lesendur um rétta túlkun knattspyrnulaganna hlýtur alltaf að vera í forgrunni. Þeim ber því að uppfæra þekkingu sína á knattspyrnulögunum í takt við þær breytingar sem Alþjóðanefnd FIFA gerir á túlkun knattspyrnulaganna í tímans rás, rétt eins og dómurunum sjálfum, jafnvel þó þeir séu ekki alltaf sammála ákvörðunum nefndarinnar.

Með hliðsjón af greiningunni hér á undan um “ákvörðunartökuferli” aðstoðardómaranna ber íþróttafréttamönnum því að útskýra fyrir alþjóð að ástæða þess að Ad veifar stundum seint sé gjarnan sú að hann sé að gefa sér þann tíma sem til þarf til þess að geta tekið rétta ákvörðun fremur en að hann vilji ana að rangri. Eins mega menn ekki láta tilfinningarnar ráða og heimta að dæmd sé rangstaða á einhvern leikmann á þeim forsendum að hann hafi “haft áhrif á leikinn” eða “hagnast á stöðu sinni” með því einu að hafa verið nálægur einhverjum varnarmanni þegar boltinn var gefinn fyrir. Það telst ekki “virk” (refsiverð) rangstaða samkvæmt fyrirmælum Alþjóðanefndar eins og á undan er getið.

Fleiri mörk, takk!

Höfum það fyrst og fremst hugfast að áhorfendur, og þar með fjölmiðlarnir, vilja sjá fleiri mörk skoruð í knattspyrnuleikjum. Til þess að svo megi verða hefur Alþjóðanefnd FIFA mælt svo fyrir að dómarar og aðstoðardómarar séu ekki neikvæðir í ákvarðanatöku sinni – þeim ber því að láta sóknina njóta vafans. Það er í verkahring varnarmannanna að verjast sóknaratlögum mótherjanna – ekki dómarateymisins.

Gylfi Orrason formaður dómaranefndar