• fös. 16. apr. 2021
  • Pistlar
  • Dómaramál

Pistill: Skál fyrir dómaranum

Ólafur Bjarkason knattspyrnudómari ritaði pistil um dómarstarfið og birti á Facebook-síðu sinni.  Í pistli sínum fjallar Ólafur um dómarastarfið frá áhugaverðu sjónarhorni.

Pistill Ólafs:

Ég hef unnið alls konar störf í gegnum árin. Flest voru þau, og eru, krefjandi á sinn hátt og mörg þeirra falla undir störf sem eru ekki hátt skrifuð í samfélaginu. Pizzasendill, blaðaútburður um nótt í Kaupmannahöfn, ræstingar, leikskólastarfsmaður og frístundastarfsmaður. Allt góð og gild störf. Sérstaklega öll störf þar sem unnið er með börnum. Frábær starfsvettvangur sem alltaf er að fá stærri sess á stalli virðingar. Nýjast starfsvettvangurinn er einnig áhugaverður í meira lagi. Dómgæsla í fótbolta. Sem er að mörgu leyti erfiðasta starfið sem ég hef tekið að mér.

Að vera dómari í fótbolta er eins og að vera gestur í brúðkaupi. Brúðkaupi hjá fyrrverandi maka. Og ákveða óumbeðinn að halda ræðu. Þú hefur stórkostlegt vald og það horfa allir á þig með óttablandinni virðingu, en það eru allar líkur á að þetta klúðrist. Það er eiginlega sama hvað þú segir. Það verður einhver ósáttur. Og þó að svo ólíklega vilji til að allt heppnist fullkomlega. Þó að þú náir að koma svo vel fyrir þig orði að allir brandararnir poppa upp á hárréttu augnabliki. Þá eru nær engar líkur á því að einhver hrósi þér. Þú færð kannski eitt kínk frá stökum kolli.

En það eru kostir. Margir kostir. Og þetta hér að framan er líklega málað í full dökkum tónum. Kostirnir eru meðal annars þessir. Góður félagsskapur, ferðalög, spennandi verkefni að taka þátt í. Og auðvitað fyrir þá sem elska fótbolta, þá er þetta frábær leið til að vera hluti af leiknum. Þetta er hvatningin sem rekur þig út í að hreyfa þig. Og það allra besta við dómgæslu. Sem er svo þroskandi fyrir alla sem taka þátt. Þú verður að læra að taka ákvörðun og þora að standa með henni. Sem er það besta. Læra, að til þess að geta tekið góðar ákvarðanir, þá þarf undirbúning og þekkingu og staðfestu. Alveg sama hvað allir reyna að púa þig niður af sviðinu, þá veistu betur. Þú ætlar að standa upp á sviði og halda þessa tölu og þér er alveg sama þó að fyrrverandi mágur þinn sé að safna liði út í sal til að berja þig. Og þér er alveg sama þó að fyrrverandi tengdapabbi þinn sé eins og eldfjall í framan. Þú stendur keikur. Viss í þinni eigin sannfæringu.

Fyrir mig er þessi innri sannfæring lærdómskúrfa en fyrir aðra er það meðfætt. Þeir ná fljótt árangri. En verkefnin eru miserfið. Því meira sem er undir því meira verður kappið og verkefnið flóknara. Svo eru aðrir hlutir sem spila inn í. Góður maður og kollegi sagði eitt sinn við mig að líklega væri vanmetið hvað það er erfitt að dæma hjá 2. flokki karla. Ástæður eru nokkrar. Þar eru drengir á framhaldsskólaaldri sem eru margir orðnir fullmótaðir karlmenn og leggja allt í sölurnar. Þeir eru fæstir búnir að uppgötva núvitund og heilinn er á yfirsnúningi við að framleiða testasterón. Á þessu stigi eru gjarnan þjálfarar sem eru að sanna sig í hlutverkinu og gleyma sér stundum í hita leiksins. Svo eru áhorfendur. Sem oftast eru foreldrar sem hafa fylgt og stutt við sinn leikmann upp alla yngri flokka. Þá getur verið auðvelt að tapa áttum og skella skuldinni á dómarann. Ég hef horft á börnin mín spila óteljandi fótboltaleiki og ég hef alltof oft staðið mig að því sama. Góla eitthvað út í loftið sem ég sé strax eftir.

Sem er að vissu leyti eðlilegt. Þegar um er að ræða vinsælustu íþrótt í heimi þá er nær öruggt að margir eigi eftir að hafa skoðun á ákvörðunum sem eru teknar inn á vellinum. Það er eðli leiksins. Það þarf ekki annað en að skoða umræðuþræði á samfélagsmiðlum eftir stóra leiki, til að átta sig á að huglægt mat er hluti af leiknum. Þó að reglurnar séu skýrar (taka samt reglulegum breytingum) þá er það alltaf mat dómarans hvort að um brot sé að ræða eða ekki, innan ákveðins ramma. Þannig að ... ábyrgðin er mikil. Það er líklega þess vegna sem ég hef helgað mig hlutverki aðstoðardómarans. Þá get ég staðið á vellinum með mitt módel andlit og látið leikinn líta betur út. Aðstoðað dómarann við að tryggja öryggi leikmanna og séð til þess að allir leiki eftir settum reglum.

Takk fyrir mig kæru brúðhjón. Skál fyrir dómaranum.

Ólafur Bjarkason