• þri. 19. des. 2017
  • Fréttir

Gylfi Þór og Sara Björk knattspyrnufólk ársins 2017

Samsett

Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Söru Björk Gunnarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2017. Þetta er í 14. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja. 

Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin hjá körlum og konum. Þau sem lentu í þremur efstu sætunum í leikmannavali KSÍ 2017 hjá báðum kynjum eru eftirfarandi: 

Knattspyrnumaður ársins 

1.sæti 


Gylfi Þór Sigurðsson var frábær á síðasta keppnistímabili hjá Swansea City, líkt og venjulega, og skoraði níu mörk og átti 13 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni. Hann var stór þáttur í því að halda liðinu í efstu deild, en það endaði í 15. sæti. Síðastliðið sumar var Gylfi seldur til Everton og varð með því langdýrasti knattspyrnumaður Íslands. Fyrir Everton hefur hann leikið 22 leiki á yfirstandandi leiktímabili, skorað fjögur mörk og átt fjórar stoðsendingar. Gylfi hefur verið lykilmaður í landsliði Íslands á árinu, sem fyrr, og skoraði hann fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar í sjö leikjum, og byrjaði í öllum leikjum liðsins í undankeppni HM 2018 í Rússlandi. 

2. sæti 


Aron Einar Gunnarsson er fyrirliði A landsliðs karla og gríðarlega mikilvægur hlekkur í árangri liðsins undanfarin ár. Aron leikur með Cardiff, en liðið endaði í 12. sæti á síðastliðnu tímabili. Liðið hefur verið á góðri siglingu þar á yfirstandandi tímabili og situr í 2. sæti deildarinnar þegar þetta er skrifað. Aron Einar og Gylfi Þór hafa haldið áfram að mynda frábært miðjupar hjá landsliðinu. Hann lék á árinu átta leiki, þar af alla leiki liðsins í undankeppni HM 2018 og átti þar eina stoðsendingu. 

3. sæti 


Jóhann Berg Guðmundsson hefur leikið með Burnley síðan sumarið 2016 og hefur verið í stóru hlutverki þar á yfirstandandi tímabili. Í 17 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni hefur hann átt fimm stoðsendingar. Á síðasta tímabili lékk hann 20 leiki í deildinni, skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar. Jóhann lék sex leiki með landsliðinu á árinu og skoraði tvö mörk, þ.á.m. seinna mark Íslands gegn Kosóvó þar sem liðið tryggði sæti sitt á HM í Rússlandi 2018. 

Knattspyrnukona ársins 

1.sæti 


Sara Björk Gunnarsdóttir er lykilmaður í þýska stórliðinu Wolfsburg og vann bæði deildina og bikarinn á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Á yfirstandandi tímabili hefur Sara leikið alla leiki liðsins og skorað þrjú mörk, en Wolfsburg situr á toppi deildarinnar. Sara lék 14 leiki með Íslandi árið 2017 og skoraði í þeim eitt mark. Hún var fyrirliði liðsins í úrslitakeppni EM 2017 í Hollandi og algjör lykilmaður á miðjunni. 

2. sæti 


Sif Atladóttir lék alla leiki Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni og skoraði eitt mark, en liðið endaði í 5. sæti. Sif var einnig stór hlekkur í velgengni kvennalandsliðsins á árinu, en hún lék 13 leiki árið 2017 og var eins og klettur í vörn Íslands. Liðið lék í úrslitakeppni EM 2017 í Hollandi og vann síðan glæsilegan útisigur á Þýskalandi í undankeppni HM 2019. 

3.sæti 


Dagný Brynjarsdóttir lék með bandaríska liðinu Portland Thorns í NWSL deildinni í Bandaríkjunum og varð meistari með liðinu á árinu. Dagný lék 13 leiki á tímabilinu og kom inn á sem varamaður í úrslitaleiknum gegn North Carolina Courage. Hún lék sjö leiki með íslenska landsliðinu á árinu og skoraði í þeim þrjú mörk, þ.á.m. tvö mörk í glæstum sigri Íslands á Þýskalandi.

b75a9513-00e7-4167-8db6-4b7c57f65a00_L