• fös. 02. feb. 2018
  • Pistlar

Ein sterk heild

Það er óhætt að segja að við séum að lifa skemmtilega tíma sem áhugafólk um fótbolta. Við eigum svo sannarlega að njóta augnabliksins núna sem stuðningsmenn landsliðanna okkar. 

Árangur karlalandsliðsins hefur vakið heimsathygli. Að vinna fimm mótsleiki af sex á liðnu ári og enda í efsta sæti riðilsins var stórkostlegt afrek. Þessi árangur er hvetjandi fyrir alla okkar iðkendur og við gleðjumst saman og hlökkum til sumarsins. Við getum verið stolt af árangrinum. Heimir og teymið hans ásamt frábærum landsliðsmönnum okkar eiga mikinn heiður skilinn. Það er líka ljóst í mínum huga að uppleggið í þessum árangri er grasrótarstarfið í aðildarfélögunum okkar. Þar byrjar þetta allt saman, verum minnug þess. 

Kvennalandsliðið fór í lokakeppni EM í Hollandi. Við náðum að skapa mikla stemningu í kringum liðið en árangurinn lét á sér standa. Hins vegar kom liðið öflugt til baka í haust og vann m.a. hið gríðarsterka lið Þjóðverja á útivelli. Vonandi náum við að fylgja þessu eftir nú í ár og markmiðið er að komast á HM á næsta ári. 

Nýverið var skipaður starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar, ríkisstjórnarinnar og KSÍ. Verkefni hópsins er að rýna þá kosti sem eru í stöðunni hvað varðar endurbyggingu Laugardalsvallar og skila af sér tillögu um framhaldið fyrir 1. apríl. Vinnan hefur farið vel af stað og ég er bjartsýnn á að niðurstaðan verði endurbygging vallarins og að undirbúningur hefjist fyrir HM í sumar. Við verðum að bregðast við breyttu mótafyrirkomulagi landsliða og vera í stakk búin að keppa á okkar heimavelli að vetri til, hvernig sem viðrar. 

Eitt aðalverkefni okkar í KSÍ er rekstur og þjálfun yngri landsliða okkar. Gengið hefur verið gott hjá mörgum liðanna og þrjú lið leika í milliriðlum nú í vor. Það er gríðarlega mikilvægt að standa vel að þessu starfi og huga vel að þessari næstu kynslóð okkar landsliðsfólks.

Mótahald KSÍ gekk vel á árinu og um 6000 leikir voru leiknir í mótum á okkar vegum. Þór/KA varð Íslandsmeistari og vann Pepsi-deild kvenna eftir spennandi keppni og Valur sigraði örugglega í Pepsi-deild karla þetta árið. Eyjamenn komu svo sterkir inn í Borgunarbikarnum og unnu bæði í karla- og kvennaflokki. Stjarnan náði í 16 liða úrslit í Meistaradeild kvenna. Fylkir sigraði í Inkassodeildinni og Keflavík fylgdi þeim upp. Í 1. deild kvenna sigraði HK/Víkingur og Selfoss fylgdi þeim upp. Í 2. deild karla vakti athygli árangur Magna í Grenivík sem komst upp í Inkasso-deildina. 

Aðsókn dróst saman í Pepsi-deild karla og við ætlum okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að stemma stigu við því – með sameinuðum krafti félaganna, KSÍ, sjónvarpsrétthafa og Ölgerðarinnar. 

Vinnu við nýjan vef KSÍ er að ljúka og mun hann líta dagsins ljós í næsta mánuði. Huga þarf sérstaklega vel að allri grunnvinnu vð vefinn okkar og við höfum líka lagt ríka áherslu á að gera hann notendavænan. Þetta verkefni var tímabært og það verður spennandi að kynna hann fyrir hreyfingunni, enda er vefur KSÍ fyrst og fremst þjónustu- og upplýsingavefur fyrir félögin og aðra aðila tengda knattspyrnuhreyfingunni. 

Á 70 ára afmælisári okkar var síðan gefin út bók um sögu kvennaknattspyrnunnar. Þetta er stórmerkileg saga og lengri en margan grunar. Er þar sagt frá fyrstu leikjum og þróun kvennafótboltans ásamt deildakeppninni og uppgangi landsliðsins. Þökkum við höfundinum, Sigmundi Ó. Steinarssyni, kærlega fyrir hans vinnu við bókina. 

Rekstur KSÍ stendur traustum fótum nú sem endra nær á undanförnum árum. Árangur karlalandsliðsins hefur gert það að verkum að auknir fjármunir hafa komið inn í okkar rekstrarreikning. Við höfum leitast við að láta aðildarfélögin njóta þess með útgreiðslu á stórum hluta þess hagnaðar. Við þurfum líka að styrkja okkar starfsemi þar sem það á við til þess að geta fylgt árangri okkar eftir um leið og við eflum og byggjum upp þá þjónustu sem við veitum aðildarfélögunum og öllum hagsmunaðilum í knattspyrnuhreyfingunni. Þar fyrir utan höfum við einnig verið að reyna að nýta okkur þennan meðbyr til þess að efla og breikka okkar tekjugrunn. Við höfum einnig á árinu verið í stefnumótunarvinnu sem við teljum að muni efla okkar starfsemi og styrkja enn frekar. Allt er þetta gert með hag íslenskrar knattspyrnu í huga. 

Við viljum nota þá fjármuni sem við fáum til þess að gefa okkur frekara tækifæri til þess að efla faglegt starf á knattspyrnusviðinu hjá bæði aðildarfélögum okkar og landsliðunum eins og mögulegt er. Á þessum tímum velgengni landsliðanna er gott að minna sig á hvar þetta byrjar allt saman og halda áfram að þróa og bæta okkar starf með samstöðu og framsækni. Nýtum okkur meðbyrinn til frekari góðra verka. Vinnum saman að því að skapa þannig umhverfi fyrir yngri kynslóðir knattspyrnufólks að það sé rými fyrir sem flesta iðkendur á öllum getustigum, samhliða því að efla afreksstarfið. Það er kjarni okkar fótboltasamfélags. 

Við erum ein sterk heild, innan vallar sem utan. 

Knattspyrnukveðja,
Guðni Bergsson,
formaður KSÍ