• fös. 15. jún. 2018

Stöndum þétt saman!

Kæru landsmenn, nú er komið að því. HM er hafið og Ísland er með í fyrsta sinn. Þetta er frábær áfangi í okkar knattspyrnusögu og líka í sögu landsins, því þessi vettvangur er svo stór á heimsvísu.

Við getum verið stolt af því að komast í hóp þessara þjóða sem taka þátt í lokakeppni HM. Ísland er lang fámennasta landið til þess að ná í úrslitakeppnina og ofan á það búa fáar þjóðir við eins erfið veðurskilyrði til knattspyrnuiðkunar. Við ætlum samt ekki að dvelja við það, heldur komum til leiks staðráðin í að sýna okkar besta og ná sem bestum árangri.

Karlalandsliðið okkar hefur náð hreint ótrúlegum árangri undanfarin ár. Þar koma margir við sögu – leikmenn og þjálfarateymið með Heimi í fararbroddi, svo þeir helstu séu nefndir, og allt starfsliðið á bak við liðið.

Við höfum fylgst með strákunum ná að snúa leikjum sér í vil eftir að hafa lent undir, en oftar en ekki höfum við þó séð þá taka frumkvæðið og vinna sigur á stórþjóðum - bæði hér heima og á útivöllum.

Þessi sigurvilji, skipulag og samstaða liðsins hefur verið aðdáunarverð. En það er annað sem er mér líka hugleikið og það er samstaðan með liðinu og stuðningsmönnunum. Það er eitt af einkennum liðsins og hefur vakið mikla athygli í knattspyrnuheiminum. Það endurspeglar þá staðreynd að við eigum mikið hvert í öðru hér heima á Íslandi. Í fámenninu felast viss lífsgæði sem eiginleikar liðsins og tengingin við stuðningsmenn okkar endurspeglar.

Njótum sem flest HM og stöndum þétt saman eins og segir í fyrirsögninni, sem fengin er að láni frá Stuðmönnum. Hvort sem við erum úti í Rússlandi, hér heima á Íslandi með fjölskyldu og vinum eða á HM-torginu. Njótum lífsins og augnabliksins saman í sumar. Ísland og íslenskur fótbolti er að fara á HM og flest ef ekki öll eigum við einhvern þátt í því.

 

Áfram Ísland!

Guðni Bergsson

Formaður KSÍ