• mán. 18. maí 2020
 • Fundargerðir

2238. fundur stjórnar KSÍ - 14. maí 2020

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður (vék af fundi kl. 17:00), Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson. 

Mættur framkvæmdastjóri:  Klara Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

 1. Fundargerð síðasta fundar
  • Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

 2. Fundargerðir nefnda/starfshópa lagðar fram til kynningar:
  • Starfshópur um útbreiðslumál 12. maí 2020.  Þorsteinn Gunnarsson formaður starfshópsins fylgdi fundargerðinni úr hlaði.  Rætt var um framhald af grasrótarverkefni síðasta sumars.  Stjórn er einhuga að halda áfram á sömu braut. 

 3. Covid-19
  • Rætt um úttekt/líkan Deloitte sem kynnt var stuttlega á síðasta stjórnarfundi.  Deloitte er að leggja lokahönd á verkefnið.  Framundan er frekari vinna með viðkomandi félögum.
  • Rætt um aðgerðir vegna félaganna.  Farið var yfir stöðu KSÍ með félögum í efstu deildum í síðustu viku.  Frekari umræðu um málið og ákvörðunartöku frestað.   

  • Reglugerðarbreytingar
   Stjórn KSÍ samþykkti breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Um ræðir breytingar unnar af laga- og leikreglnanefnd KSÍ sem sendar voru til umsagnar hjá ÍTF. Með leikjaniðurröðun sumarsins í huga hefur verið samþykkt að keppnistímabilið 2020 verði skilgreint frá 1. febrúar til 15. nóvember í ár. Þá samþykkti stjórn KSÍ að það sem eftir var af fyrri félagaskiptaglugga 22. febrúar til 15. maí (28 dagar), sem lokað var tímabundið 17. apríl sl., opni aftur frá 3. júní til 30. júní. Þá er lagt til að seinna félagaskiptatímabilið, sem hefur áður verið í júlí, færist aftar og opni yfir tímabilið 5. ágúst til 1. september. Samþykki stjórnar er með fyrirvara um endanlegt samþykki FIFA á nýju keppnistímabili og félagaskiptatímabilum fyrir árið 2020.  Einnig samþykkti stjórn KSÍ aðrar breytingar á reglugerðinni er varða opinbera knattspyrnuleiki í deildarbikarkeppni karla og kvenna árið 2020, félagaskipti ósamningsbundinna leikmanna yngri flokka og samninga leikmanna og félaga sem renna út árið 2020 og samninga leikmanna við ný félög.

   Stjórn gaf skrifstofu KSÍ umboð til að koma málinu í nauðsynlegan farveg gagnvart FIFA og ganga frá nauðsynlegum reglugerðarbreytingum.


  • Mótamál
   • Verið er að vinna úr þeim athugasemdum sem hafa borist við niðurröðun móta.  Ljóst er að í sumum tilfellum er erfitt að finna viðunandi lausnir og niðurstaðan getur orðið sú að niðurröðun verður ekki öllum hagstæð við núverandi ástand (færri vikur/tilhögun ferðalaga).
   • Mótanefnd er að vinna að tillögum að útfærslum ef upp koma aðstæður sem koma í veg fyrir/tefja venjubundna framvindu móta.  Mótanefnd mun kynna tillögur sínar fyrir stjórn áður en Íslandsmótin/Mjólkurbikarinn hefst.   
   • Leiðbeiningar um framkvæmd leikja vegna takmarkana verða tilbúin í næstu viku.
   • Rætt um flugáætlun Flugfélags Íslands í sumar en samkvæmt þeim upplýsingum sem KSÍ hefur fengið fækkar ferðum og tímasetningar breyttast.  Ef af verður hafa þessar breytingar neikvæð áhrif á ferðatilhögun liða og auka kostnað þeirra.  KSÍ hefur nálgast ÍSÍ með þetta mál og mun ÍSÍ ræða það við Flugfélagið á fundi nú í maí. 
     
  • Rætt um knattspyrnulögin og tímabundna heimild FIFA til að fjölga skiptingum í efstu deildum.
   • Stjórn samþykkti að nýta þessa heimild og fól skrifstofu KSÍ og Laga og leikreglnanefnd að undirbúa nauðsynlegar reglugerðarbreytingar.

 4. Önnur mál
  • Rætt um skipan í embætti og nefndir.  Líta þarf til kynjasjónarmiða og dreifingu á félög.   Málið verður unnið á milli funda.
  • Borghildur Sigurðardóttir varaformaður spurði um úthlutanir úr mannvirkjasjóð.  Mikill fjöldi umsókna barst og það verður tímafrekt að fara yfir þær.  Málið er í höndum framkvæmdastjóra og formanns mannvirkjanefndar. 

Næsti stjórnarfundur verður fimmtudaginn 28. maí 2020.

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 17:40.