• þri. 23. feb. 2021
  • Ársþing
  • Fræðsla

Múrbrjótar og Kormákur/Hvöt hljóta grasrótarverðlaun KSÍ

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum 18. febrúar að veita tvenn grasrótarverðlaun fyrir árið 2020 - annars vegar til Fótboltafélagsins Múrbrjóta og hins vegar til Kormáks/Hvatar.

 

Múrbrjótar vegna verkefnisins “Fótbolti án fordóma”

Fótboltafélagið Múrbrjótar hefur það að markmiði að bjóða einstaklingum sem takast á við geðræn og félagsleg vandamál upp á fótboltaæfingar, auka þátttöku í hollri hreyfingu, efla samfélags- og félagsvitund og rjúfa einangrun fólks með því að hittast og spila fótbolta. Verkefnið, sem er á vegum búsetusviðs Akureyrar, fór af stað árið 2015 en Fótboltafélagið Múrbrjótar var formlega stofnað árið 2018.

Á ári eins og því síðasta, þar sem auknar líkur á félagslegri einangrun voru svo sannarlega fyrir hendi, þá sönnuðu Múrbrjótar enn frekar gildi sitt, með því að bjóða okkar viðkvæmasta hópi upp á tækifæri til að rjúfa þá einangrun með fótboltaæfingum sem opnar voru öllum. Fótboltafélagið Múrbrjótar er vel að grasrótarverðlaunum KSÍ komið.

 

Kormákur/Hvöt vegna öflugs knattspyrnustarfs fyrir börn og fullorðna

Félögin Kormákur frá Hvammstanga og Hvöt frá Blönduósi hafa um nokkurra ára skeið átt í farsælu samstarfi í yngri flokkum drengja og stúlkna og meistaraflokki karla. Dæmi um ágæti þessa samstarfs er að sumarið 2020 sendi Kormákur/Hvöt lið til keppni í 11 manna bolta í 3. flokki karla, 8 manna bolta í 4. flokki kvenna og A og B lið til keppni í bæði 5. flokki karla og 5. flokki kvenna. Íþróttaþátttaka á báðum þessum stöðum er til mikillar fyrirmyndar og þar spilar þátttaka í knattspyrnu stærsta hlutverkið.

Þegar Siguróli Kristjánsson heimsótti Blönduós á síðasta ári í átakinu “Komdu í fótbolta með Mola”, hafði hann orð á því að krafturinn og jákvæðnin í öllum sem að heimsókninni komu, ekki síst foreldrum og sjálfboðaliðum, hafi verið einstaklega minnisstæð og til eftirbreytni.

Kormákur/Hvöt er dæmi um gott samstarf tveggja félaga úr minni bæjarfélögum, sem láta fjarlægð ekki hindra sig í að halda úti öflugu knattspyrnustarfi fyrir börn og fullorðna og KSÍ telur þessi félög vel að Grasrótarverðlaunum komin.