• sun. 06. jún. 2021
  • U19 karla
  • Landslið

Annað 2-2 jafntefli hjá U19 karla gegn Færeyjum

U19 karla gerði aftur 2-2 jafntefli við Færeyjar, en Orri Steinn Óskarsson og Hilmir Rafn Mikaelsson skoruðu mörk Íslands

Það var Orri Steinn sem átti fyrsta færi Íslands í leiknum á 17. mín, en skalli hans fór yfir eftir aukaspynu Íslands. Orri Steinn skoraði svo fyrsta mark leiksins á 32. mínútu eftir góða sendingu frá Jakobi Franz Pálssyni.

Færeyjar voru ekki lengi að svara marki Íslands og fjórum mínútum síðar voru þeir búnir að jafna. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 1-1 í leikhléi.

Ísland gerði fimmfalda skiptingu í hálfleik. Logi Hrafn Róbertsson, Guðmundur Tyrfingsson, Óskar Borgþórsson, Úlfur Ágúst Björnsson og Lúkas Logi Heimisson komu inn á. Útaf fóru þeir Danijel Dejan Djuric, Orri Steinn Óskarsson, Þorsteinn Aron Antonsson, Óli Valur Ómarsson og Jón Vignir Pétursson.

Færeyjar byrjuðu síðari hálfleikinn vel og á 60. mínútu komust þeir yfir með góðu marki. Átta mínútum síðar fékk Ísland vítaspyrnu og Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði úr henni og jafnaði þar með leikinn. Í fyrri hálfleik voru það Færeyjar sem voru fljótir að svara marki Íslands, en núna voru það strákarnir okkar sem voru fljótir að svara eftir að hafa lent undir. Átta mínútum eftir að Færeyjar komust í 2-1 fékk Ísland víti. Á vítapunktinn steig Hilmir Rafn og skoraði af öryggi. Staðan því orðin jöfn, 2-2. 

Fátt markvert gerðist til loka leiksins og 2-2 jafntefli því staðreynd.