• mið. 06. apr. 2022
  • Fræðsla
  • Mótamál

KSÍ semur við Wyscout fyrir 3. flokk kvenna og karla

KSÍ vinnur nú að því að gera samning við Wyscout um að greina leiki í A-riðlum Íslandsmóts 3. flokks karla og 3. flokks kvenna.  Þessi samningur mun gera þeim aðildarfélögum KSÍ sem eiga lið í þessum mótum kleift að fá aðgang að leikgreiningum og tölfræði fyrir lið og leikmenn úr leikjum þessara móta.  Leikgreiningarnar og tölfræðin er sú sama og félög fá í gegnum Wyscout í Bestu deildum kvenna og karla og Lengjudeild karla. Verkefni er viðkomandi félögum að kostnaðarlausu og er útvíkkun á samningi sem KSÍ gerði við Wyscout árið 2020.

Arnar Þór Viðarsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ:

"Það er mat okkar að þetta sé stórt skref í átt að faglegri umgjörð fyrir okkar efnilegustu leikmenn ásamt því að þetta er frábært tækifæri fyrir okkar efnilegu þjálfara sem eru að þjálfa yngri flokka til að kynnast og hafa aðgang að faglegri greiningu af þeirra liði, eigin leikmönnum og andstæðingum.  Þessi samningur gerir það að verkum að félög geta búið yfir gögnum og tölfræði yfir leikmenn 3. flokks. Þessi gögn er til dæmis hægt að nota til að bera saman okkar leikmenn við erlenda leikmenn ásamt því að innan fárra ára eiga félögin gagnabanka af upplýsingum til að bera saman (benchmarks) leikmenn milli árganga. Um er að ræða tilraunaverkefni og það er von okkar hjá KSÍ að við getum stækkað þetta yfir í aðra riðla og flokka á næsta ári."