• mán. 19. des. 2022
  • Landslið

Glódís Perla og Hákon Arnar Knattspyrnufólk ársins 2022

Leikmannaval KSÍ hefur valið Glódís Perlu Viggósdóttur og Hákon Arnar Haraldsson Knattspyrnufólk ársins 2022. Þetta er í 19. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.

Knattspyrnukona ársins

1. sæti 

Glódís Perla Viggósdóttir er Knattspyrnukona ársins í fyrsta skipti. Hún hefur verið fastur hlekkur í vörn Bayern München og íslenska landsliðsins á árinu, líkt og áður. Á síðastliðnu keppnistímabili lenti Bayern München í öðru sæti í þýsku úrvalsdeildinni og komst í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Liðið situr nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og er búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Glódís Perla lék 11 leiki með landsliðinu á árinu, þar af var hún í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjum liðsins á EM í Englandi.

2. sæti

Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með stórliði Wolfsburg í þýsku úrvalsdeildinni og lyfti með liðinu þýska titlinum á síðasta keppnistímabili ásamt því að vinna þýska bikarinn og komast í undanúrslit í Meistaradeild Evrópu. Á tímabilinu sem er í gangi í dag er Wolfsburg í efsta sæti í þýsku úrvalsdeildinni og er þegar búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Sveindís lék alla 12 leiki Íslands á árinu og er lykilmaður í leik liðsins.

 

3. sæti

Sandra Sigurðardóttir hefur átt frábært ár, bæði með Val og íslenska landsliðinu. Sandra varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Val í sumar og var valin besti markmaður deildarinnar af Leikmannasamtökunum. Sandra lék níu landsleiki á árinu og átti frábært EM á Englandi í sumar og var með bestu markmönnum mótsins.

Knattspyrnumaður ársins

Mynd - Mummi Lú

1. sæti

Það má með sanni segja að Hákon Arnar Haraldsson hafi komið fram á sjónvarsviðið með miklum krafti á árinu. Á sínu fyrsta heila keppnistímabili í meistaraflokki vann hann dönsku úrvalsdeildina með FCK, komst alla leið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem hann varð fjórði Íslendingurinn til að skora í keppninni, og svo lék hann fyrstu A-landsleiki sína, sjö talsins.

Mynd - Mummi Lú

2. sæti

Arnór Sigurðsson lék með IFK Norrköping á síðastliðnu keppnistímabili á láni frá CSKA. Arnór lék frábærlega með sænska liðinu eftir að hann gekk til liðs við það í sumar, en þetta er í annað sinn sem hann leikur með félaginu. Hann lék 11 leiki í sænsku deildinni, skoraði í þeim sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Arnór lék níu leiki árinu með Íslandi og skoraði eitt mark, gegn Ísrael í júní.

3. sæti

Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks, en liðið vann Bestu deild karla á sannfærandi hátt í sumar. Hann lék alla leiki liðsins á tímabilinu, allar mínútur þess utan fimm mínútna í einum leik og skoraði sjö mörk. Höskuldur spilaði sex landsleiki á árinu og var t.a.m. fyrirliði landsliðsins í leik þess gegn Suður-Kóreu í nóvember.