• mið. 22. feb. 2023
  • Fræðsla
  • Ársþing

Grasrótarpersóna ársins 2022: Jón Theodór Jónsson hjá Skallagrími

Ýmsar árlegar viðurkenningar eru jafnan afhentar í aðdraganda ársþings KSÍ og á ársþinginu sjálfu eftir atvikum.

Grasrótarverðlaunum KSÍ er skipt upp í þrjá flokka: Grasrótarverkefni ársins, Grasrótarfélag ársins og Grasrótarpersóna ársins. Þetta er í annað sinn sem verðlaunum er þrískipt með þessum hætti.

Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margar flottar tilnefningar bárust í öllum þremur flokkunum í ár og greinilegt að grasrótarstarf í fótbolta er í miklum blóma víðs vegar um land. Það var verðugt verkefni að velja úr og margar tilnefningar komu til greina.

Grasrótarpersóna ársins 2022:

Jón Theodór Jónsson fyrir störf sín hjá Skallagrími í Borgarnesi.

Jón Theodór Jónsson gegnir stóru og ómetanlegu hlutverki í öllu starfi Skallagríms í Borgarnesi. Í umsögn sem fylgdi með tilnefningu hans segir meðal annars:

"Jón Theodór sýnir mikla ástríðu fyrir þjálfun yngri flokka og hefur rifið upp knattspyrnustarfið í Borgarnesi. Sérstaklega hefur hann lagt alúð við þá miklu fjölgun sem hefur orðið hjá stúlkum í knattspyrnu. Hann sýnir öllum iðkendum áhuga og hvetur einstaklinginn til þess að vilja bæta sig. Krakkarnir dýrka hann og mæta á æfingar þrátt fyrir misgóða æfingaaðstöðu. Hann lætur hverjum iðkanda líða eins og hann skipti miklu máli sem hluti af heildinni.”

Mynd:  Jón Theodór Jónsson og Dagur Sveinn Dagbjartsson frá KSÍ.