• fös. 03. mar. 2023
  • Landslið
  • U15 karla
  • Hæfileikamótun
  • U21 karla

Þórhallur Siggeirsson nýr yfirmaður Hæfileikamótunar karla

KSÍ hefur ráðið Þórhall Siggeirsson sem yfirmann hæfileikamótunar karla og þjálfara U15 landsliðs karla. Þórhallur verður einnig aðstoðarþjálfari U21 landsliðs karla, en hann hefur verið í þjálfarateymi U21 liðsins frá árinu 2021 sem þrekþjálfari.

Þórhallur, sem hefur starfað við þjálfun frá árinu 1999 og hefur kennt á A og B þjálfaragráðum KSÍ frá árinu 2018, hefur viðamikla reynslu sem þjálfari hér á landi hjá HK, Stjörnunni, Þrótti R. og Val. Hann er með UEFA A og UEFA Youth A Elite þjálfaragráður ásamt því að vera með M.Sc. í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur þjálfað unga leikmenn, verið yfirþjálfari, afreksþjálfari og þjálfað meistaraflokk. Síðustu misseri hefur hann þjálfað hjá Sarpsborg í Noregi og Emami East Bengal á Indlandi ásamt því að vera í þjálfarateymi U21 ára landsliðs karla frá 2021, eins og kemur fram hér að ofan.

KSÍ væntir mikils af störfum Þórhalls fyrir knattspyrnuhreyfinguna og býður hann velkominn til starfa.