• fim. 27. apr. 2023
  • Leyfiskerfi

Fótboltaskýrsla Deloitte og KSÍ komin út – í fyrsta sinn fyrir íslenskan fótbolta

Mynd - Helgi Halldórsson

Í fyrsta sinn á Íslandi hafa Deloitte og KSÍ gefið út samantektarskýrslu um fjármál íslenskrar knattspyrnu.

Unnar hafa verið greiningar á ársreikningum þeirra félaga sem hafa tekið þátt í keppni efstu deilda karla og kvenna á árunum 2019 – 2022. Tekjuliðir og gjöld félaganna hafa verið greind og ýmis áhugaverð atriði borin saman.

Gögn úr ársuppgjörum félaganna eru sett fram á gagnvirkan og notendavænan hátt með mælaborði Microsoft Power BI sem gefur fólki innsýn í rekstur félaganna á skýran og aðgengilegan hátt. Samanburður á milli knattspyrnufélaga og ára verður vart auðveldari með örfáum smellum.

„Það er afar ánægjulegt að sjá afrakstur greiningarvinnu á ársreikningum félaga í leyfiskerfi KSÍ. Sérstaklega finnst mér gleðilegt að leyfisgögn, sem félög innan leyfiskerfis KSÍ hafa eytt mikilli vinnu í að skila ár hvert, séu nýtt þannig að þau gagnist sem best félögunum sjálfum. Sömuleiðis mun þessi vinna gagnast öðrum félögum sem vinna sig upp í þessar deildir í framtíðinni. Ég vona að skýrslan veki enn meiri áhuga almennings á starfi knattspyrnufélaga og auki enn frekar á umræðu um fótbolta og fjármál,“ segir Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur hjá KSÍ.