• sun. 27. ágú. 2023
  • Besta deildin
  • Mótamál
  • Stjórn

Stjórn staðfestir fyrri ákvörðun - Leik Víkings og Breiðabliks ekki frestað

Frá stjórn KSÍ vegna kröfu Breiðabliks um endurskoðun ákvörðunar stjórnar um að synja beiðni um frestun á leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla

Stjórn KSÍ staðfestir fyrri ákvörðun sína um að staðfesta ákvörðun mótanefndar KSÍ um að synja beiðni um frestun á leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla.

Skýring

Stjórn KSÍ hefur móttekið beiðni/kröfu Breiðabliks um endurskoðun ákvörðunar stjórnar um að synja beiðni um frestun á leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla. Stjórnin hefur fullan skilning á erindinu og myndi samþykkja frestun ef það væri nokkur raunhæfur möguleiki, en vegna neikvæðra áhrifa á önnur félög þá var ekki hægt að verða við því.

Beiðni um frestun hefur því nú fengið umfjöllun mótanefndar, sem synjaði beiðninni og stjórnar, sem hefur nú tvisvar fjallað um beiðnina og komist að sömu niðurstöðu í bæði skipti.

Helst voru skoðaðar tvær mögulegar lausnir, þar sem ekki er hægt að þétta úrslitakeppnina. Annars vegar að lengja mótið í heild og hins vegar að nota landsleikjahléið í september. Eftir að hafa skoðað þessa möguleika vandlega og leitað lausna er niðurstaðan að synja beiðni um frestun, þrátt fyrir góðan vilja allra sem komu að málinu.

Varðandi möguleikana tvo:

  1. Lengja mótið í efri hlutanum: Þessi lausn er ekki ásættanleg að mati stjórnar og ekki sanngjörn. Áhrifin eru of mikil á mörg félög og frestun myndi raska miklu. Ef þessi ákvörðun hefði verið tekin þá myndi mótinu ljúka töluvert eftir landsleikjahlé í október, sem er mun seinna en allar áætlanir félaganna reikna með. Félögin sjálf, leikmenn, starfsmenn og aðrir fulltrúar þeirra hafa gert ýmsar áætlanir í sínu starfi og í sínum verkefnum sem miða við lok mótsins og frestun myndi hafa mikil áhrif, þ.m.t. fjárhagslega. Þurft hefði að gera meiriháttar breytingar á seinni hluta Bestu deildar karla og jafnvel úrslitaleik Mjólkurbikars karla með tilheyrandi seinkun á lokum þessara móta og þar með miklu raski á leikjaplani annara félaga.
  2. Nota landsleikjagluggann: Mest skoðað, því þá væru áhrifin aðeins á eitt annað félag. Við nánari skoðun gengur þessi breyting ekki upp þar sem ekki er hægt að fara gegn vilja annars félags að færa leik inn í fyrirfram ákveðinn landsleikjaglugga, þar sem liðið myndi missa sterka leikmenn vegna verkefna A og U21 landsliða. Engin fordæmi hafa fundist fyrir slíkri ákvörðun, þ.e. að færa leik liðs sem á leikmenn í landsliðum inn í fyrirfram ákveðinn landsleikjaglugga gegn þeirra vilja. Stjórnin velti líka upp möguleikanum á að samþykkja að leikmenn liðanna sem um ræðir kæmu ekki til greina í verkefni U21 landsliðsins, sem væri ekki góð lausn og slæmt fordæmi.

Varðandi fregnir af því að andstæðingar Breiðabliks í Evrópukeppninni hafi fengið leikjum frestað, þá breytir færsla á leikjum í öðrum löndum ekki forsendum leikja í mótum á Íslandi. Auk þess er deildin í N-Makedóníu rétt að hefjast og því auðveldara um vik að breyta leikjum.

Stjórn KSÍ tekur þessa ákvörðun með hagsmuni heildarinnar í huga og eftir vandlega íhugun.  Stjórnin hefur fullan skilning á sjónarmiðum Breiðabliks og hefði sannarlega viljað geta komið til móts við félagið. Stjórn KSÍ vann þetta mál af bestu samvisku og ákvörðunin var vissulega erfið að taka.

Stjórnin vonar innilega að Breiðablik nái enn lengra í Evrópukeppni og óskar liðinu alls hins besta í komandi leik gegn FC Struga.