• þri. 22. júl. 2025
  • Landslið
  • Mótamál

KSÍ í samstarf við SECUTIX um heildarlausn í miðasölu

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur gert samkomulag við SECUTIX um notkun á tækni- og viðskiptalausn í miðasölu fyrir viðburði á vegum KSÍ. Með þessu samstarfi mun KSÍ nýta bæði tæknivettvang SECUTIX og nýju heildarþjónustuna FAN4LIFE, sem felur í sér ráðgjöf, sölu, afhendingu, greiðsluvinnslu, þjónustu á viðburðastað og stuðning við miðakaupendur.

Ný lausn fyrir miðakaupendur

Með tilkomu nýrrar lausnar geta aðdáendur haldið utan um alla sína miða í gegnum sérstakt smáforrit (app), sem eyðir þörfinni fyrir prentaða miða. Einnig verður mun einfaldara að framselja eða endurselja miða með rafrænum hætti – allt í KSÍ-merktri upplifun innan smáforritsins.

KSÍ fær betri yfirsýn og þjónustutækifæri

Samstarfið og SECUTIX-lausnin gefur KSÍ aðgang að öllum gögnum sem safnast í gegnum miðasölukerfið. Þetta gerir KSÍ kleift að bjóða sérsniðnar lausnir fyrir mismunandi hópa miðakaupenda – eitthvað sem margir hafa kallað eftir.

Stuðningur við tiltölulega smáa en öfluga starfsemi

Þar sem KSÍ er með tiltölulega fámennan starfsmannahóp í samanburði við önnur evrópsk knattspyrnusambönd, mun samstarfið við SECUTIX gera sambandinu kleift að bæta þjónustu við miðakaupendur án þess að auka rekstrarkostnað.

Umfang samstarfsins

KSÍ selur árlega yfir 50.000 miða á leiki landsliða og félagsliða á Laugardalsvelli. SECUTIX vettvangurinn og FAN4LIFE þjónustan verða tekin í notkun fyrir úrslitaleiki bikarkeppna innanlands, sem og alla A-landsleiki karla og kvenna – þar á meðal komandi undankeppni HM 2026.

Lausnir SECUTIX er notaðar víða í Evrópu og má þar meðal annars nefna að skosku og norsku knattspyrnusamböndin nota SECUTIX og þá eru miðar á leiki EM kvenna í Sviss afhentir miðakaupendum í gegnum SECUTIX.  KSÍ notaðist við SECUTIX í fyrsta sinn á leik A landsliðs kvenna við Frakkland á Laugardalsvelli þann 3. júní síðastliðinn.