• fös. 22. des. 2023
  • Landslið
  • Mótamál

Glódís og Hákon knattspyrnufólk ársins 2023

Glódís Perla Viggósdóttir og Hákon Arnar Haraldsson eru knattspyrnufólk ársins 2023 samkvæmt niðurstöðu Leikmannavals KSÍ. Kjörið var afgerandi í báðum tilfellum.

Knattspyrnukona ársins: Glódís Perla Viggósdóttir

Glódís Perla Viggósdóttir er Knattspyrnukona ársins í annað sinn og annað árið í röð. Hún hefur sem fyrr verið fastur hlekkur í vörn Bayern München og íslenska landsliðsins á árinu og gegndi lykilhlutverki með báðum liðum. Glódís fagnaði þýska meistaratitlinum með Bayern í vor sem leið, lék allar mínútur í öllum 22 leikjum liðsins og skoraði þrjú mörk. Þá lék hún einnig 9 leiki með liði sínu í Meistaradeild UEFA þar sem Bayern féll úr leik í 8-liða úrslitum og 4 leiki í bikar. Á yfirstandandi tímabili hefur Glódís leikið alla leiki Bayern hingað til og er einn af fyrirliðum liðsins. Glódís, sem hefur leikið 120 A-landsleiki og skorað 10 mörk, er fyrirliði A landsliðs kvenna og lék hún alla leiki liðsins í Þjóðadeildinni og skoraði eitt mark, auk þess að leika sex af sjö vináttuleikjum ársins.

2. sæti:  Karólína Lea Vilhjálmsdóttir

3. sæti:  Sveindís Jane Jónsdóttir

 

Knattspyrnumaður ársins: Hákon Arnar Haraldsson

Hákon Arnar Haraldsson er Knattspyrnumaður ársins í annað sinn og annað árið í röð. Hákon hefur fest sig í sessi sem lykilmaður í íslenska landsliðinu og lék hann 8 af 10 leikjum Íslands í undankeppni EM á árinu. Hann hefur alls leikið 15 A-landsleiki og skorað í þeim 3 mörk. Hákon var máttarstólpi í liði FC Köbenhavn í Danmörku á liðnu tímabili og fagnaði danska meistaratitlinum í vor sem leið, lék 29 leiki í deildinni, skoraði 4 mörk og lagði upp 4, auk 6 bikarleikja og 8 leikja (1 mark) í Meistaradeild UEFA. Um sumarið flutti Hákon sig um set þegar hann var seldur til franska úrvalsdeildarliðsins LOSC Lille. Þar hefur hann komið við sögu í 12 leikjum í deild og 6 leikjum í Sambandsdeild UEFA það sem af er tímabilinu.

2. sæti:  Jóhann Berg Guðmundsson

3. sæti:  Hákon Rafn Valdimarsson