• mán. 22. des. 2025
  • Landslið
  • Mótamál

Glódís Perla og Hákon Arnar knattspyrnufólk ársins 2025

Glódís Perla Viggósdóttir og Hákon Arnar Haraldsson eru knattspyrnufólk ársins 2025 samkvæmt niðurstöðu Leikmannavals KSÍ.

Knattspyrnukona ársins: Glódís Perla Viggósdóttir

Glódís Perla Viggósdóttir er Knattspyrnukona ársins í fjórða sinn og fjórða árið í röð.Líkt og áður hefur hún verið einn af lykilleikmönnum Bayern München og íslenska landsliðsins og er fyrirliði beggja liða. Glódís varð þýskur meistari með Bayern í vor sem leið og tapaði liðið aðeins einum leik í deildinni á tímabilinu. Glódís lék 18 leiki í deildinni og skoraði í þeim tvö mörk. Glódís varð einnig þýskur bikarmeistari er Bayern München vann 4-2 sigur á Werder Bremen í úrslitaleik keppninnar. Glódís lék fjóra leiki í bikarkeppninni og skoraði í þeim eitt mark. Glódís lék sex leiki í Meistaradeild UEFA, en þar datt Bayern út í 8-liða úrslitum keppninnar eftir tap gegn Lyon. Glódís lék 10 A-landsleiki á árinu og þar af alla leiki liðsins á EM 2025. Á núverandi tímabili hefur Glódís leikið níu leiki í deild, einn í þýska bikarnum og fimm í Meistaradeild UEFA.

2. sæti - Cecilía Rán Rúnarsdóttir

3. sæti - Sandra María Jessen

Knattspyrnumaður Ársins: Hákon Arnar Haraldsson

Hákon Arnar Haraldsson er Knattspyrnumaður ársins í þriðja sinn. Hákon Arnar hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár, er varafyrirliði liðsinsog lék níu leiki með liðinu á árinu. Hann hefur alls leikið 28 A-landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk. Hákon Arnar lék 25 leiki á liðinu tímabili með LOSC Lille í frönsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim fimm mörk. Auk þess skoraði hann tvö mörk í sex leikjum í Meistaradeild UEFA. Hákon hefur leikið frábærlega á nýju tímabili, leikið 15 leiki í deildinni og skoraði í þeim fimm mörk. Í Evrópudeildinni hefur hann leikið sex leiki og skorað eitt mark.

2. sæti - Albert Guðmundsson

3. sæti - Elías Rafn Ólafsson