• 05.06.2008 00:00
  • Pistlar

Vertu með 21. júní!

Guðrún Inga Sívertsen
gudruninga

Á ársþingi KSÍ í febrúar sl. var samþykkt jafnréttisáætlun sambandsins. Jafnframt var kynnt aðgerðaráætlun jafnréttismála fyrir tímabilið 2008 – 2009. Skipaður var starfshópur sem hefur það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaráætluninni en samkvæmt  henni skal KSÍ skipa jafnréttisfulltrúa, spila á jafnréttisumferð í efstu deild kvenna og karla, fara af stað með átaksverkefni í fjölgun kvendómara, halda dag kvennaknattspyrnunnar, stuðla að fjölgun kvenna í stjórnun aðildarfélaganna og veita jafnréttisviðurkenningu á ársþingi KSÍ. 

Starfshópurinn hefur ásamt fleirum unnið að því að hrinda í framkvæmd þessum aðgerðum með ýmsum hætti.

Á vormánuðum var haldið dómaranámskeið eingöngu fyrir konur. Í kjölfar námskeiðisins hafa nokkrar stúlkur starfað sem aðstoðardómarar í efstu deild kvenna ásamt því að dæma í neðri deildum. Það var löngu orðið tímabært að  konur á Íslandi færu að láta að sér kveða í dómgæslu og vonandi mun þeim konum fjölga á  næstu árum í hópi virkra dómara.

Ákveðið  hefur verið að halda dag kvennaknattspyrnunnar hátíðlegan laugardaginn 21. júní. Þann dag verður skemmtidagskrá á Laugardalsvelli frá 12:30 en klukkan 14:00 spilar íslenska kvennalandsliðið við Slóveníu í undankeppni EM. Tilgangur með degi kvennaknattspyrnunnar er að vekja athygli á knattspyrnu kvenna og hvetja ungar stelpur til þess að stunda íþróttina. Það er vel við hæfi að á degi kvennaknattspyrnunnar spili A-landslið kvenna mikilvægan leik í undankeppni EM en liðið á, eins og kunnugt er, mikla möguleika á að verða fyrsta A landslið Íslands í knattspyrnu til þess að komast í úrslitakeppni stórmóts.

Áttunda umferð Landsbankadeildar kvenna sem spiluð verður 8. júlí verður sérstök jafnréttisumferð með fyrirsögninni:  „Leikur án fordóma”. Með henni er vakin athygli á minnihlutahópum og aðkomu þeirra að knattspyrnuhreyfingunni.

Knattspyrnan er leikur allra óháð kynferði, þjóðernisuppruna, kynþætti, trúarbrögðum, kynhneigð, skoðunum, efnahagi, ætterni, búsetu  eða stöðu að öðru leyti og leggur KSÍ  mikla áherslu á að engir fordómar fyrirfinnist í íslenskri knattspyrnu. Í ágúst mun svo ein umferð í Landsbankadeild karla einnig verða leikinn sem jafnréttisumferð.  

KSÍ mun standa fyrir leiðtoganámskeiði næsta vor en námskeiðið mun auðvelda konum og körlum störf sín í stjórnum og ráðum aðildarfélaganna. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja námskeiðið en það mun vonandi hvetja þær til aukinnar þátttöku í starfi félaganna.

Á næsta ársþingi verður í fyrsta skipti veitt jafnréttisviðurkenning KSÍ en sú viðurkenning verður veitt einstaklingi eða félagi sem hefur unnið framúrskarandi starf á sviði jafnréttismála innan íslenskrar knattspyrnu eða stuðlað að framgangi jafnréttis í íslenskri knattspyrnu.

Þegar jafnréttisstefna Knattspyrnusambands Íslands var samþykkt var gefinn tónn fyrir íslenska knattspyrnu í jafnréttismálum. Markmkið stefnunnar er að sjónarmið jafnréttis verði samofið allri knattspyrnuiðkun á Íslandi og knattspyrnuiðkendur eigi jafna möguleika til að sinna íþrótt sinni og ná fram þroska í greininni. Mikilvægt er að hafa ávallt hugfast að knattspyrnan á að vera leikur án fordóma, leikur sem öllum á að vera kleift að stunda.

 

Með jafnréttiskveðju,

Guðrún Inga Sívertsen

formaður starfshóps um jafnréttisáætlun