• 23.06.2008 00:00
  • Pistlar

"Það er alltaf rosalega gaman á vellinum hjá okkur"

Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurdur_Ragnar_Eyjolfsson2

Kæru Íslendingar,

Nú er landsleikurinn búinn gegn Slóveníu þar sem vannst mikilvægur 5-0 sigur í riðlakeppni Evrópumótsins.  Það komu 3.922 áhorfendur að styðja við bakið á okkur og það var frábær stemmning á leiknum.  Leikurinn var sá næstfjölmennasti í sögu íslenska kvennalandsliðins.  Tólfan mætti í fyrsta skipti á leik hjá okkur og bjó til frábæra stemmningu.  Þessir 3.922 manns eiga þakkir skilið. 

Ég hugsa að flestir landsmenn séu meðvitaðir um að kvennalandsliðinu gengur mjög vel og eru stoltir af árangri liðsins.  Einhverra hluta vegna eru þeir samt ekki allir tilbúnir að koma á völlinn og sína þar með stuðning sinn í verki.  En það er þeirra missir, því það er alltaf rosalega gaman á vellinum hjá okkur!  Við ætlum líka að hafa gaman á fimmtudaginn. 

Á fimmtudaginn mun kvennalandsliðið vonandi leika sinn síðasta heimaleik á þessu ári og að þessu sinni gegn Grikklandi.  Sigur í þeim leik myndi gera það að verkum að okkur myndi duga jafntefli í síðasta leik okkar gegn Frakklandi til að vinna riðilinn okkar og þar með ná því markmiði að verða fyrsta A-landslið Íslands sem kemst í úrslitakeppni stórmóts.

Úrslit leiksins skipta líka öllu máli fyrir okkur upp á hversu sterkan mótherja við myndum fá í umspili í haust ef við myndum lenda í því að enda í 2. sætinu í okkar riðli og fara því umspilsleiðina.

Sigur gegn Grikklandi mun sennilega tryggja okkur það að mæta liði í umspili sem lenti í 3. sæti í sínum riðli.  Landsleikurinn á fimmtudaginn er því ekki síður mikilvægari en síðasti landsleikur.  Við treystum áfram á stuðning þinn og íslensku þjóðarinnar! 

Á fimmtudaginn er síðasti séns að sína kvennalandsliðinu þann stuðning sem þær eiga skilið.  Ég treysti á að þú mætir og takir alla sem þú þekkir með þér!

Sjáumst á vellinum!

Áfram Ísland

Siggi Raggi

A-landsliðsþjálfari kvenna