• 30.04.2012 00:00
  • Pistlar

Velkomin til leiks

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Það er komið sumar og knattspyrnan fer í gang á völlum landsins. Mörg þúsund leikir munu fara fram í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum landsins á vegum KSÍ þar sem um 20 þúsund iðkendur reyna með sér. Slíkt krefst skipulags og undirbúnings sem staðið hefur í allan vetur.

Hið mikla uppeldisstarf sem unnið er innan aðildarfélaga KSÍ verður sýnilegt og á hverju ári koma fram á sjónarsviðið leikmenn sem slá í gegn sem bera þessu öfluga starfi ótvíræðan vitnisburð. Höfum hugfast að sumarið snýst ekki bara um árangur heldur líka framkomu; að hafa rétt við í skemmtilegum leik.

Efstu deildir karla og kvenna bera áfram nafn Pepsi. Það var einkar ánægjulegt sl. haust að endurnýja samstarfssamning okkar við Ölgerðina til 2016 en samstarfið hefur gengið frábærlega sl. 3 ár. Ölgerðin á stóran þátt í glæsilegri umgjörð Pepsi-deildanna.

Ég vil nota tækifærið í upphafi tímabils og þakka forystumönnum íslenskra knattspyrnufélaga mikið og óeigingjarnt starf. Ég býð leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn keppnisliða, dómara, stuðningsmenn liða og fulltrúa fjölmiðla velkomna til leiks. Þakkir eiga skildar allur hinn mikli fjöldi sjálfboðaliða sem leggur mikið af mörkum til þess að halda knattspyrnustarfinu gangandi og annast m.a. framkvæmd leikja.

Það er spennandi og skemmtilegt knattspyrnusumar framundan. Fjölmennum á völlinn í sumar og tökum þátt í að skapa spennandi leik og fjölskylduvæna skemmtun. 

Sportmyndir_30P6885