• mán. 15. jan. 2001
  • Landslið

Góður sigur á Indverjum

Íslenska landsliðið lék síðastliðinn laugardag gegn Indverjum í Sahara Millennium Cup sem fram fer á Indlandi og vann góðan 3-0 sigur, en Tryggvi Guðmundsson gerði þrennu í leiknum. Heimamenn voru ívið sterkari í fyrri hálfleik og skoraði Tryggvi fyrsta markið gegn gangi leiksins á 41. mínútu, en staðan í hálfleik var 1-0, Íslandi í vil. Í síðari hálfleik réðu síðan Íslendingar ferðinni lengst af, Tryggvi bætti við öðru marki á 53. mínútu og fullkomnaði síðan þrennuna tíu mínútum síðar.

Með þessum sigri hefur Ísland tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum, en það ræðst ekki fyrr en eftir leik Indverja gegn Uruguay í dag, mánudag, hvort Ísland hafnar í fyrsta eða öðru sæti í riðlinum.

Byrjunarliðið (4-4-2)

Markvörður: Fjalar Þorgeirsson.

Varnarmenn: Gunnlaugur Jónsson, Bjarni Þorsteinsson, Sverrir Sverrisson og Indriði Sigurðsson.

Tengiliðir: Gylfi Einarsson, Þórhallur Hinriksson, Ólafur Örn Bjarnason og Sigurvin Ólafsson.

Framherjar: Tryggvi Guðmundsson og Guðmundur Benediktsson