• mið. 20. nóv. 2002
  • Landslið

Tap við erfiðar aðstæður í Tallinn

Heimamenn höfðu betur 2-0 í vináttulandsleik Eistlands og Íslands, sem fram fór í Tallinn í dag. Leikurinn fór fram við mjög erfiðar aðstæður, en mikill snjór var á vellinum og þegar líða tók á varð hann mjög blautur og þungur. Engu að síður verður að hrósa báðum liðum fyrir heiðarlegar tilraunir til að leika góða knattspyrnu, miðað við ástand vallarins.

Markalaust var hálfleik þrátt fyrir nokkrar ágætar marktilraunir af hálfu beggja liða, skot í slá frá heimamönnum og skalla í stöng frá Hermanni Hreiðarssyni. Tryggvi Guðmundsson var felldur rétt innan vítateigs um miðjan hálfleikinn, en þó fékk hann einungis aukaspyrnu þar sem dómarinn taldi brotið hafa verið fyrir utan teig. Síðari hálfleikur var ekki jafn fjörugur og sá fyrri og þó íslenska liðið virtist hafa undirtökin voru það Eistlendingar sem skoruðu tvö mörk, fyrst á 75. mínútu og aftur á þeirri 84.