• fim. 30. des. 2004
  • Landslið

Eiður Smári Guðjohnsen útnefndur Íþróttamaður ársins 2004

Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Chelsea í Englandi og fyrirliði íslenska landsliðsins, var á miðvikudagskvöld útnefndur Íþróttamaður ársins 2004. Það voru Samtök íþróttafréttamanna sem stóðu að valinu. Tveir aðrir knattspyrnumenn komu til greina í ár, þeir Heimir Guðjónsson hjá FH og Hermann Hreiðarsson hjá Charlton. Eiður Smári, sem nálgast óðum markamet Ríkharðs Jónssonar með íslenska landsliðinu, lék á árinu 7 landsleiki og skoraði í þeim 4 mörk. Alls eru landsliðsmörk hans því orðin 13 í 34 landsleikjum. Eiður Smári hefur átt góðu gengi að fagna með félagsliði sínu Chelsea, sem nú situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og er Eiður markahæsti maður liðsins í deildinni. Liðið er einnig komið áfram í aðra umferð Meistaradeildar Evrópu. Segja má að enginn annar íslenskur íþróttamaður hafi notið eins mikillar athygli í íþrótt sinni eins og Eiður Smári gerir í dag, þegar hann leikur í vinsælustu íþrótt í heimi, og þar er hann glæsilegur fulltrúi íslenskrar knattspyrnu.