• þri. 06. sep. 2005
  • Landslið

Frábær 3-1 sigur hjá U21 karla í Sofia

EM U21 landsliða karla
em_u21_karla

U21 landslið karla vann í dag, þriðjudag, frábæran 3-1 sigur á liði Búlgara í undankeppni EM 2006, en liðin mættust í Sofia í Búlgaríu. 

Búlgarar náðu forystunni gegn gangi leiksins snemma í síðari hálfleik, þrátt fyrir að vera manni færri, en íslenska liðið svaraði með þremur mörkum.

Þar með vann íslenska liðið Búlgari með sömu markatölu í báðum viðureignum liðanna, en 3-1 sigur Íslands varð einmitt niðurstaðan á Víkingsvellinum síðastliðið haust.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, en íslenska liðið náði smám saman undirtökunum. 

Einum leikmanni búlgarska liðsins var vísað af leikvelli skömmu fyrir leikhlé og var hóf íslenska liðið síðari hálfleikinn af miklum krafti, enda manni fleiri.

Þrátt fyrir það náðu heimamenn forystunni þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, gegn gangi leiksins. 

Okkar piltar juku sóknarkraftinn í kjölfarið og uppskáru fljótlega tvö mörk með stuttu millibili, fyrst jafnaði Pálmi Rafn Pálmason og síðan náði Emil Hallfreðsson forystunni.

Eftir þetta jafnaðist leikurinn nokkuð, en þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma gulltryggði Garðar B. Gunnlaugsson sigur Íslendinga með því að skora þriðja mark liðsins.

Ísland er sem fyrr í 4. sæti riðilsins, en er nú með 10 stig að loknum níu leikjum, hefur skorað 10 mörk og fengið jafn mörg á sig.

Síðasti leikur Íslands í riðlinum er útileikur gegn Svíum 11. október næstkomandi.