• þri. 27. sep. 2005
  • Landslið

Sjö marka sigur hjá U19 kvenna gegn Georgíu

EM U19 landsliða kvenna
em_u19_kvenna

U19 landslið kvenna vann Georgíu með sjö mörkum gegn engu í undankeppni EM í dag, þriðjudag.  Katrín Ómarsdóttir og Greta Mjöll Samúelsdóttir gerðu báðar tvö mörk fyrir íslenska liðið, sem gerði í raun út um leikinn á fyrsta hálftímanum.

Okkar stúlkur gerðu harða atlögu að marki Georgíu strax í upphafi leiks, náðu að skora þrjú mörk um miðbik fyrri hálfleiks, og gerðu í raun út um leikinn.  Fyrst skoraði María Kristjánsdóttir og Katrín Ómarsdóttir bætti síðan við tveimur mörkum.  Meira var ekki skorað í fyrri hálfleik.

Áfram hélt sókn íslenska liðsins í síðari hálfleik.  Greta Mjöll skoraði eftir um 10 mínútna leik, beint úr hornspyrnu, og bætti við öðru marki þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.  Áður en yfir lauk höfðu Elísa Pálsdóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir bætt við mörkum og gulltryggt stórsigur Íslands, 7-0.

Riðillinn fer fram í Bosníu/Hersegóvínu og á sama tíma áttust við heimamenn og Rússar og lauk þeim leik með 6-0 sigri Rússa. 

Næsta umferð fer fram á fimmtudag og þá leikur íslenska liðið við Bosníu/Hersegóvínu.