• fös. 07. okt. 2005
  • Landslið

Tap gegn Pólverjum í fimm marka leik

Knattspyrnusamband Póllands
poland_fa

Íslenska landsliðið tapaði vináttulandsleik gegn Pólverjum í Varsjá í dag, föstudag. Fimm mörk voru skoruð í leiknum og átti íslenska liðið tvö þeirra, bæði í fyrri hálfleik. Tveir leikmenn léku sinn fyrsta A-landsleik.

Kristján Örn Sigurðsson náði forystunni fyrir Ísland eftir stundarfjórðung, þegar hann þrumaði boltanum í netið eftir góðan undirbúning félaga sinna og stungusendingu frá Brynjari Birni Gunnarssyni, sem var fyrirliði íslenska liðsins í leiknum.

Pólverjar jöfnuðu metin nokkrum mínútum síðar með skoti úr vítateignum vinstra megin, en Hannes Þ. Sigurðsson kom Íslandi aftur yfir þegar nokkuð var liðið á fyrri hálfleik. Hannes fékk boltann frá Stefáni Gíslasyni rétt utan við teig, hefði getað sent hann aftur á Stefán sem hefði verið kominn einn í gegn, en kaus að skjóta. Knötturinn hafnaði neðst í markhorninu eftir hnitmiðað skot Hannesar.

Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik, en heimamenn tóku forystu í leiknum þegar þeir skoruðu tvö mörk með skömmu millibili fljótlega í síðari hálfleik - fyrst jöfnuðu þeir metin eftir vel útfærða aukaspyrnu, og sigurmarkið kom þegar sóknarmaður komst einn í gegnum íslensku vörnina og renndi boltanum framhjá Kristjáni Finnbogasyni í markinu.

Margt jákvætt var í leik íslenska liðsins og t.d. áttu tveir ungir leikmenn góðan leik - Hannes Þ. Sigurðsson, sem lék einn í framlínunni og skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið, og Sölvi Geir Ottesen, sem var í A-landsliðinu í fyrsta sinn.

Sölvi var ekki sá eini sem lék sinn fyrsta A-landsleik í dag, því Daði Lárusson, markvörður Íslandsmeistara FH, kom inn á undir lok leiksins fyrir Kristján Finnbogason.