• mán. 10. okt. 2005
  • Landslið

Svíar þurfa stig til að tryggja HM-sætið

Heimsmeistarakeppnin 2006
hm_2006_logo

Lokaumferð undankeppni HM 2006 fer fram á miðvikudag. Í 8. riðli þurfa Svíar a.m.k. jafntefli gegn Íslendingum á Råsunda til að tryggja sæti í lokakeppni HM í Þýskalandi næsta sumar.

Króatar náðu efsta sæti riðilsins með því að leggja Svía í Zagreb á laugardag. Darijo Srna skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu og með sigrinum tryggðu Króatar sæti sitt í lokakeppninni.

Evrópa á 14 sæti í lokakeppni HM í Þýskalandi og eiga Þjóðverjar eitt þeirra sem gestgjafar, en um hin 13 sætin er keppt í átta riðlum. Sigurvegarar hvers riðils um sig fara beint í lokakeppnina, ásamt þeim tveimur liðum sem hafa bestan árangur í 2. sæti - alls 10 lið. Um hin sætin þrjú keppa síðan þau 6 lið sem höfnuðu í 2. sæti hinna riðlanna.

Króatar eru öruggir með að verða a.m.k. eitt af þeim tveimur liðum sem eru með bestan árangur í 2. sæti, takist Svíum að komast upp fyrir þá í efsta sæti 8. riðils. Sæti Króata í lokakkeppninni er því tryggt. Svíar þurfa hins vegar aðeins eitt stig í lokaleik sínum, gegn Íslandi á Råsunda í Stokkhólmi, til að vera öruggir með að komast til Þýskalands. Þó gæti sú staða komið upp að Svíar myndu fara áfram þrátt fyrir að tapa lokaleiknum, þar sem Tékkar þyrftu að vinna Finna stórt í Finnlandi til að ná sætinu af Svíum.