• mið. 12. okt. 2005
  • Landslið

Ísland hefur ekki tapað gegn Svíþjóð á árinu

U21 landslið karla
U21-2004-0079

Landslið Íslands og Svíþjóðar hafa mæst sex sinnum á þessu ári og hefur Svíum ekki enn tekist að sigra.  Öll yngri landslið karla hafa leikið gegn sænskum landsliðum á árinu, sem og A landslið kvenna.

U19 landslið karla (leikmenn fæddir 1987 og síðar) mætti Svíþjóð í tveimur vináttulandsleikjum hér á landi í byrjun júní.  Á Grindavíkurvelli hafði Ísland betur og vann með tveimur mörkum gegn engu, en í Sandgerði tveimur dögum síðar gerðu liðin 2-2 jafntefli.

Í júlí tók U19 landslið karla (leikmenn fæddir 1988 og síðar) þátt í móti í Svíþjóð ásamt heimamönnum, Norðmönnum og Tyrkjum.  Ísland hafnaði í 2. sæti í þessu móti og lagði meðal annars Svía með fjórum mörkum gegn einu.

A landslið kvenna mætti Svíum ytra í lok ágúst í undankeppni HM 2007.  Lokatölur leiksins voru 2-2 og var íslenska liðið óheppið að ná ekki að innbyrða sigur í þeirri viðureign, gegn einu besta kvennalandsliði heims.

Viðureign U17 landsliðs karla við Svía í undankeppni EM í Andorra í lok september lauk með sömu markatölu og hjá A kvenna, 2-2 jafntefli.

Síðast en ekki síst ber að nefna glæsilegan 4-1 sigur U21 liðs karla í lokaumferð undankeppni EM í Eskilstuna á þriðjudag.

Þetta gerir sex leiki gegn Svíum á árinu - þrjá sigra og þrjú jafntefli.

A landslið karla mætir Svíum í lokaumferð undankeppni HM 2006 í Stokkhólmi í kvöld.  Leikurinn fer fram á Råsunda leikvanginum og hefst kl. 17:30 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Sýn.

Hvað gerist í kvöld?  Höldum við okkar striki gegn Svíum?