• þri. 16. okt. 2007
  • Landslið

Jafntefli hjá U21 karla gegn Austurríki

ISL_AND_Jun2006Rurikskorar
ISL_AND_Jun2006Rurikskorar

Íslenska U21 karlalandsliðið gerði í dag jafntefli við Austurríki í riðlakeppni EM 2009.  Leikurinn fór fram á Grindavíkurvelli og lauk 1-1 eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.

Það var hart barist á báða bóga í leiknum og ekki var liðin mínúta þegar að fyrsta gula spjaldið leit dagsins ljós.  Íslendingar sóttu meira með vindinn í bakið og besta færið fékk Rúrik Gíslason snemma í leiknum en bjargað var frá honum á marklínu. Undir lok hálfleiksins var einum Austurríkismanni svo vikið af leikvelli og gestirnir því tíu það sem eftir lifði leiks.

Gestirnir fengu engu að síður óskabyrjun í síðari hálfleik þegar þeir skoruðu stórglæsilegt mark með langskoti strax á 49. mínútu.  Íslendingar gáfu þá í og á 64. mínútu jafnaði Rúrik Gíslason metin af stuttu færi.  Einum fleiri freistuðu Íslendingar þess að knýja fram sigur og sóttu mikið að marki gestanna.  Austurríkismenn náðu þó að verja mark sitt og jafntefli því staðreynd, það þriðja í fjórum leikjum hjá Íslendingum.

Íslenska liðið á eftir einn leik í þessum riðli á þessu ári en þeir sækja Belga heim 20. nóvember næstkomandi.  Liðið mun þó leika vináttulandsleik við U21 lið Þjóðverja á undan, eða föstudaginn 16. nóvember.

Riðillinn