• mið. 17. okt. 2007
  • Landslið

Tap í Liechtenstein

Byrjunarlið Íslands gegn Spánverjum í riðlakeppni EM 2008.
Island_Spann_A_Landslid_karla_0032

Íslenska karlalandsliðið beið lægri hlut gegn Liechtenstein í undakeppni EM 2008 í kvöld.  Leikið var á Rheinpark Stadion í Liechtenstein og lokatölur urðu 3-0 heimamönnum í vil eftir að þeir höfðu haft eins marks forystu í hálfleik.

Íslenska liðið náði aldrei takti í þessum leik og var sigur heimamanna sanngjarn.  Liechtenstein komst yfir um miðjan fyrri hálfleik með marki úr teignum en skömmu síðar fékk Eiður Smári Guðjohnsen dauðafæri sem markvörður Liechtenstein varði vel.  Íslenska liðinu gekk engan veginn að ná tökum á leiknum og heimamenn gengu til hálfleiks með eins marks forystu.

Í síðari hálfleik voru Íslendingar aðgangsharðari án þess að skapa sér nógu mikið af færum.  Heimamenn ógnuðu með skyndisóknum þegar færi til þeirra gáfust.  Íslenska lið færði sig fram er leið á leikinn en þegar um 10 mínútur voru til leiksloka þá bættu Liechtenstein við öðru marki sínu eftir langa spyrnu frá markmanni þeirra.  Aðeins þremur mínútum síðar bættu heimamenn við þriðja markinu með hörkuskoti frá vítateigslínu í nærhornið.

Það voru því leikmenn Liechtenstein er fögnuðu sanngjörnum sigri í lok leiksins en íslenska liðið nagar sig vafalaust í handarbakið eftir þetta tap.

Íslenska liðið á einn leik eftir í undankeppni EM 2008 en það er leikur gegn Dönum á Parken.  Leikurinn fer fram miðvikudaginn 21. nóvember og er hægt að kaupa miða á leikinn hér.

Riðillinn