• sun. 25. nóv. 2007
  • Landslið

Ísland í 9. riðli fyrir undankeppni HM 2010

Merki HM 2010 í Suður Afríku
HM2010SudurAfrika

Dregið hefur verið í riðla fyrir undankeppni HM 2010.  Drátturinn fór fram í Durban í Suður-Afríku í dag, sunnudag, og hafnaði Ísland í 9. riðli, sem er eini fimm liða riðillinn, en í öllum hinum eru sex lið.  Þetta þýðir að ekkert lið úr neðsta styrkleikaflokknum er með Íslandi í riðli.

Í riðlinum eru þessar þjóðir:

  1. Holland
  2. Skotland
  3. Noregur
  4. Makedónía
  5. Ísland

Fulltrúar þessara þjóða koma saman 14. desember næstkomandi til að ræða niðurröðun og dagsetningar leikja.

Hollendingum höfum við ekki mætt síðan Ólympíulandslið þjóðanna voru saman í riðli í undankeppni Ólympíuleikanna í Seoul 1988.

Skotum höfum við mætt fimm sinnum og hafa þeir skosku alltaf unnið.  Skotar voru með okkur í riðli í undankeppni EM 2004.

Norðmönnum höfum við mætt oftar en nokkru öðr landsliði, eða 25 sinnum.

Makedónía var í okkar riðli í undankeppni HM 1998 og eru þeir tveir leikir einu viðureignir þjóðanna hingað til.

Skoða má upplýsingar um alla landsleiki og fyrri undankeppnir í valmyndinni hér til vinstri.  Smellið á A "lið karla" til að skoða nánar.