• mán. 04. feb. 2008
  • Landslið

Eins marks tap gegn Möltu

A landslið karla
ksi-Akarla

Íslenska karlalandsliðið tapaði gegn Möltu í kvöld en leikurinn er liður í æfingamóti sem fer fram á Möltu.  Lokatölur urðu eitt mark gegn engu fyrir heimamenn og kom markið á 18. mínútu leiksins.

Möltumenn voru heldur sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og komust yfir á 18. mínútu með skoti frá vítateigslínu.  Íslenska liðinu gekk illa að byggja upp góðar sóknir í fyrri hálfleiknum og náðu ekki að skapa sér færi í hálfleiknum.  Möltumenn fengu hinsvegar eitt mjög gott færi seint í hálfleiknum en Fjalar var vel á verði.

Byrjun seinni hálfleiks var heldur róleg en síðustu 30 mínútur leiksins voru eign Íslendinga og sköpuðu þeir sér nokkur ágætis marktækifæri sem því miður ekki nýttust.  Lokatölur því 1-0 fyrir Möltu og Ísland enn án stiga á þessu æfingamóti.

Lokaumferðin verður leikin á miðvikudag þegar að Ísland leikur á móti Armeníu og Malta leikur gegn Hvíta Rússlandi.  Í fyrri leik dagsins sigruðu Armenar Hvíta Rússland með tveimur mörkum gegn einu og eru Armenar með sex stig eftir tvo leiki.  Malta og Hvíta Rússland hafa þrjú stig en Ísland er án stiga.

Hér að neðan má sjá stutta textalýsingu sem birtist á heimasíðunni á meðan leik stóð.

Malta - Ísland

Íslenska liðinu hefur gengið illa að byggja upp góðar sóknir í leiknum og Möltumenn hættulegri án þess þó að skapa sér góð færi.  Þeir náðu þó að brjóta ísinn á 18. mínútu með skoti frá vítateig sem var óverjandi fyrir Fjalar í markinu.  Þrátt fyrir ágæta baráttu hefur íslenska liðinu ekki tekist að ná neinum tökum á leiknum og Möltumenn fengu svo gott færi til að bæta við marki en Fjalar varði vel.  Staðan eftir 40 mínútur er því 1-0 fyrir Möltu.

Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Möltu og vonandi ná strákarnir betri tökum á leiknum í síðari hálfleik.  Í fyrri leik mótsins sigruðu Armenar Hvít Rússa með tveimur mörkum gegn einu.

Síðari hálfleikur fer rólega af stað.  Íslenska liðið gerði tvær breytingar í hálfleik.  Þeir Stefán Gíslason og Helgi Sigurðsson komu inn á fyrir Ragnar Sigurðsson og Baldur Aðalsteinsson.  Þegar 15 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik er staðan ennþá 1-0 fyrir Möltu.

Leiknum er lokið og lauk honum með sigri heimamanna, 1-0.  Síðustu 30 mínútur leiksins voru eign íslenska liðsins og sköpuðu þeir sér nokkur góð marktækifæri en náðu ekki að nýta þau.  Meðal annars björguðu Möltumenn á marklínu en niðurstaðan sigur Möltu.