• lau. 29. mar. 2008
  • Landslið

Tap gegn Finnum í lokaleiknum

U17 landslið kvenna
ksi-u17kvenna

Íslenska U17 kvennalandsliðið tapaði í dag gegn stöllum sínum frá Finnlandi með tveimur mörkum gegn fjórum í lokaleik í milliriðli fyrir EM 2008.  Íslenska liðið hafnaði því í fjórða sæti milliriðilsins en Danir sigruðu riðilinn eftir hörkukeppni við Finna og leika því í úrslitakeppninni í Sviss í sumar. 

Þetta er í fyrsta skiptið sem Evrópumót er haldið í þessum aldursflokki og eru einungis fjögur lið sem taka þátt í úrslitakeppninni.

Finnar komust yfir á 12. mínútu í leiknum og leiddu þannig í hálfleik.  Seinni hálfleikur varð heldur betur fjörugur.  Finnar bættu við marki á 49. mínútu en Heiða Antonsdóttir minnkaði muninn fjórum mínútum síðar.  Finnar bættu þriðja markinu við á 58. mínútu en íslensku stelpurnar gáfust ekki upp og Andrea Ýr Gústavsdóttir minnkaði muninn aðeins þremur mínútum síðar.  Það voru svo finnsku stelpurnar sem að áttu lokaorðið með fjórða markinu á 64. mínútu og þar við sat.

Mikil spenna var um toppsætið í riðlinum og þegar að um fimm mínútur lifðu eftir af leikjum dagsins voru Finnar og Danir hnífjöfn, bæði af stigum og með nákvæmlega eins markatölu.  En undir lok leiks Dana og Rússa þá skoruðu Danir sitt annað mark í leiknum og tryggðu sér 2-0 sigur.  Þetta mark skildi Dani og Finna að og heimastúlkur fögnuðu farseðlinum til Sviss innilega.