• þri. 29. apr. 2008
  • Landslið

Fullt hús hjá U19 karla

Byrjunarlið Íslands U19 karla fyrir leikinn gegn Noregi í milliriðli fyrir EM 2008
Byrjunarlid_Noregur_april_2008

U19 karlalandsliðið vann sinn annan leik í milliriðli fyrir EM 2008 í dag en þá voru Ísraelsmenn lagðir að velli.  Lokatölur urðu 1-0 Íslandi í vil og skoraði Gylfi Þór Sigurðsson sigurmarkið á 7. mínútu leiksins.

Leikurinn í dag var mikill baráttuleikur og fá marktækifæri litu dagsins ljós.  Sigurmark leiksins kom strax á 7. mínútu leiksins þegar Gylfi Þór Sigurðsson kom boltanum í netið eftir mikla baráttu í teignum.  Þannig var staðan er flautað var til leikhlés og baráttan hélt áfram eftir hlé.  Íslenska vörnin gaf fá færi á sér þrátt fyrir að Ísraelsmenn leggðu meiri kapp á sóknarleikinn eftir því sem á leikinn leið.  Íslensku strákarnir fögnuðu svo dýrmætum sigri vel í lokin og ljóst að úrslitaleikur er framundan við Búlgari

Búlgarir unnu Norðmenn í dag með tveimur mörkum gegn engu.  Bæði mörk Búlgara komu í fyrri hálfleik í þeim leik en Norðmenn misstu mann af leikvelli í fyrri hálfleik með rautt spjald.  Þar sem markatala Búlgara er betri sem nemur einu marki er ljóst að íslenska liðið verður að sigra í leiknum til þess að komast i úrslitakeppnina sem fer fram í Tékklandi í júlí. 

Lokaumferðin fer fram á föstudaginn og hefst leikurinn kl. 16:00.  Verður spennandi að fylgjast með hvort strákarnir nái að knýja fram sigur í þeim leik og að ná þeim frábæra árangri að komast í úrslitakeppni EM í Tékklandi.

Riðillinn