• fim. 02. okt. 2008
  • Landslið

Hópurinn valinn fyrir leikina gegn Hollandi og Makedóníu

Byrjunarliðið gegn Noregi í Osló, 6. september 2008.  Mynd: Hörður Snævar Jónsson á fotbolti.net
Byrjunarlidid_gegn_Noregi_sept_2008

 

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, tilkynnti í dag hóp sinn fyrir landsleikina gegn Hollandi og Makedóníu.  Leikið verður við Holland í Rotterdam 11. október en við Makedóníu hér á Laugardalsvelli, miðvikudaginn 15. október.

Ísland hefur mætt Makedóníu tvisvar sinnum áður en það var í undankeppni fyrir HM 1998.  Jafntefli varð í leiknum á Laugardalsvelli, 1-1 og var það Arnór Guðjohnsen sem skoraði mark Íslendinga.  Í seinni leiknum í Makedóníu fóru heimamenn með sigur af hólmi, 1-0. 

Makedóníumenn hafa farið ágætlega af stað í undankeppninni að þessu sinni.  Þeir unnu Skota með einu marki gegn engu á heimavelli en töpuðu svo, einnig á heimavelli, naumlega gegn Hollendingum 1-2.

Íslendingar hafa hingað til ekki sótt gull í greipar appelsínugulra Hollendinga.  Þjóðirnar hafa mæst 10 sinnum í A landsleikjum karla og hafa Hollendingar sigrað átta sinnum en tvisvar hafa þjóðirnar gert jafntefli.  Þjóðirnar mættust fyrst árið 1973 en þá voru þjóðirnar saman í riðli í undankeppni HM 1974.  Hollendingar sigruðu þann leik með fimm mörkum gegn engu.  Þjóðirnar áttust svo aftur við í Hollandi viku síðar og var sá leikur skráður sem heimaleikur Íslands.  Holland sigraði þá, 8-1 og var það Elmar Geirsson sem skoraði mark Íslendinga.  Hollendingar fóru, sem kunnugt er, alla leið í úrslitaleik HM 1974 en biðu þar lægri hlut gegn Þjóðverjum.  Síðast mættust þessar þjóðir í undankeppni Ólympíuleikanna 1988.  Á Laugardalsvellinum varð jafntefli, 2-2 og skoraði Guðmundur Torfason bæði mörk Íslands úr vítaspyrnum.  Hollendingar sigruðu svo á sínum heimavelli með einu marki gegn engu.

Eini sigurleikur Íslands gegn Hollandi var árið 1961 en þá kom hingað til lands landslið Hollands sem eingöngu var skipað áhugamönnum.  Íslendingar sigruðu gesti sína þá með fjórum mörkum gegn þremur.  Gunnar Felixsson skoraði tvívegis og Steingrímur Björnsson eitt mark.  Það var svo Þórólfur Beck sem skoraði sigurmark Íslendinga í þessum fjöruga leik.

Hollendingar hafa einungis leikið einn leik til þessa í undankeppni HM 2010 en þeir lögðu Makedóníu á útivelli, 1-2.  

Landsliðshópurinn