• lau. 11. okt. 2008
  • Landslið

Tveggja marka tap í Rotterdam

Við erum öll í íslenska landsliðinu!
ahorfendur-10

Hollendingar sigruðu Íslendinga með tveimur mörkum gegn engu í undankeppni HM 2010 í kvöld en leikið var í Rotterdam.  Heimamenn skoruðu mark í hvorum hálfleik og fóru með sanngjarnan sigur af hólmi.

Hollendingar réðu ferðinni í fyrri hálfleik og komust yfir á 15. mínútu. Eftir það leið leikmönnum Hollands vel með boltann og sóttu fast að íslenska liðinu. Þegar að líða tók á hálfleikinn fóru Íslendingar að sækja meira í sig veðrið sóknarlega og tvisvar sinnum fékk Veigar Páll Gunnarsson þokkaleg færi og Emil Hallfreðsson fékk ágætis færi eftir góða sókn en hitti ekki markið. Heimamenn voru því með forystu þegar ágætur ítalskur dómari flautaði til hálfleiks.

Íslenska liðið hélt boltanum betur innan liðsins í síðari hálfleiknum þó svo að heimamenn væru með yfirhöndina.  Þeir bættu svo við öðru marki sínu eftir 10 mínútna leik í hálfleiknum.  Eins og og fyrri hálfleiknum fengu Íslendingar þokkaleg færi þegar leið á síðari hálfleikinn en mörkin urðu ekki fleiri og sanngjarn sigur heimamanna sanngjarn.  Íslenska liðið lék ágætlega á köflum í leiknum og getur í heildina, nokkuð vel við unað enda heimamenn gríðarlega sterkir.

Íslenska liðið kemur nú heim og leikur við Makedóníu hér á Laugardalsvelli, miðvikudaginn 15. október kl 18:00.  Miðasala er í gangi hér á netinu og er vakin athygli á því að miðaverðið á leikinn hefur verið lækkað umtalsvert.