• fim. 18. des. 2008
  • Landslið

KSÍ semur við landsliðsþjálfara

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

KSÍ hefur gengið frá tveggja ára samningum við nokkra landsliðsþjálfara.  Bæði er um endurráðningar að ræða sem og að gengið hefur verið til samninga við nýja landsliðsþjálfara.  Allir þessir samningar eru til tveggja ára.

Þeir Ólafur Jóhannesson, þjálfari A landsliðs karla og Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari U19 kvenna, eiga enn eftir eitt ár af sínum samningi.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Guðni Kjartansson – A landslið kvenna

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Guðni Kjartansson taka við A-landsliði kvennaSigurður Ragnar Eyjólfsson hefur verið endurráðinn landsliðsþjálfari A kvenna og Guðni Kjartansson sem hans aðstoðarmaður. Sigurður Ragnar tók við A landsliði kvenna í desember 2006 og var Guðni ráðinn hans aðstoðarmaður. Saman tókst þeim að koma liðinu í úrslitakeppni EM kvenna sem fram fer í Finnlandi 2009. Sigurður, sem starfar einnig sem fræðslustjóri KSÍ, lauk á síðasta ári UEFA Pro námskeiði hjá enska knattspyrnusambandinu og er annar Íslendingurinn er hefur slíka gráðu. Guðni er með gríðarlega reynslu sem þjálfari og þjálfaði t.a.m. U19 landslið karla frá 1992 til 2006.

 

Þorlákur ÁrnasonÞorlákur Árnason – U17 kvenna

Þorlákur Árnason hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari U17 kvenna og tekur við af Kristrúnu Lilju Daðadóttur. Þorlákur hefur m.a. þjálfað meistaraflokka karla hjá Val, Fylki og Stjörnunni ásamt því að hafa þjálfað fjölda yngri flokka. Hann er núverandi yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni í Garðabæ.

 

Freyr Sverrisson – U16 karlaFreyr Sverrisson

Freyr Sverrisson hefur verið endurráðinn sem þjálfari hjá U16 karla og mun halda áfram sem skólastjóri Knattspyrnuskóla KSÍ. Freyr hefur mikla reynslu í þjálfun ungmenna og er einnig yfirþjálfari yngri flokka hjá Haukum.

 

 

Gunnar Guðmundsson – U17 karla

Gunnar GuðmundssonGunnar Guðmundsson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari U17 karla og tekur þar við af Luka Kostic. Gunnar hefur þjálfað m.a. hjá Leikni Fáskrúðsfirði og Leiftur/Dalvík áður en hann tók við HK árið 2004 og þjálfaði liðið til 2008. Gunnar fór m.a. með HK upp í efstu deild karla í fyrsta skiptið í sögu félagsins.

 

 

 

Kristinn R. Jónsson – U19 karlaKristinn_R._Jonsson

Kristinn Jónsson hefur verið endurráðinn landsliðsþjálfari U19 karla en hann tók við því starfi í desember 2006. Kristinn hafði áður m.a. þjálfað meistaraflokka karla hjá ÍBV og Fram ásamt því að hafa gegnt starfi yfirþjálfara hjá Fjölni.

 

 

Eyjólfur Sverrisson – U21 karla

Eyjólfur SverrissonEyjólfur Sverrisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari U21 karla en hann þjálfaði það lið einnig á árunum 2003 - 2005. Hann tekur við því starfi af Luka Kostic. Eyjólfur átti farsælan atvinnumannaferil og lék í Þýskalandi og Tyrklandi á árunum 1990 til 2003 þegar hann lagði skóna á hilluna. Eyjólfur lék 66 leiki fyrir landslið Íslands og var fyrirliði í 19 þeirra. Hann var landsliðsþjálfari A landsliðs karla á árunum 2005 – 2007.