• fös. 14. ágú. 2009
  • Landslið

Ætlar að vera í toppformi á EM

Hólmfríður Magnúsdóttir
Holmfridur Magnusdottir

Á föstudag var haldinn blaðamannafundur fyrir landsleik Íslands og Serbíu, sem er fyrsti leikur þjóðanna í undankeppni HM 2011. Vefur KSÍ spjallaði stuttlega við landsliðskonuna Hólmfríði Magnúsdóttur og spurði hana um leikinn á morgun og EM sem framundan er.

Hólmfríður segir að leikurinn gegn Serbum á morgun sé kærkominn, þrátt fyrir að stutt sé í lokakeppni EM í Finnlandi.

"Mér finnst bara mjög gott að fá þennan leik, gott að fá einn heimaleik. Vonandi koma margir að horfa á leikinn svo við finnum stuðning frá þjóðinni. Þetta truflar ekkert, þetta er allt annað mót og við verðum bara að hugsa um leikinn á morgun og síðan einbeita okkur að EM. Eðlilega er maður búinn að hugsa mikið um EM. Maður er búinn að bíða eftir því móti frá því í nóvember í fyrra. En það verður bara frábært að fá þennan leik á morgun," segir Hólmfríður.

Hólmfríður segir ennfremur að hópur sé samheldinn og stemningin góð, bæði fyrir leikinn á morgun og fyrir EM.

"Það er búið að hugsa frábærlega vel um okkur, KSÍ og allir sem eru í kringum liðið. Allir búnir að gera sitt besta. Við komum snemma saman og erum mjög mikið saman. Þetta er mjög þéttur hópur og er besti hópur sem ég hef verið í frá því að ég byrjaði. Við eigum allavega ekki eftir að fá ógeð á hver annarri," segir Hólmfríður og bætir við að hún sé farinn að finna fyrir spenningi fyrir lokakeppni EM.

"Ég get alveg viðurkennt það að það að spennustigið er orðið frekar hátt. Það eru allir að spyrja mann og maður fær mikla athygli út á götu. Það er auðvitað bara toppurinn að fá að taka þátt í þessu. Ég er í mjög góðu formi og er búin að æfi mikið. Ég er að bæta mig enn meira því ég ætla að vera í toppformi á EM," segir Hólmfríður að lokum.