• sun. 23. ágú. 2009
  • Landslið

Dagbók Ástu, Katrínar og Rakelar: Apaleikur

KSÍ Finnland 220809 003
KSÍ Finnland 220809 003

Dagurinn hér í Tampere hefur gengið fyrirhafnarlaust fyrir sig þar sem að dagskrá dagsins hefur meira og minna verið að borða og hvílast til skiptist.

Öll einbeiting hefur verið á Frakkaleikinn á morgun og er mikil spenna og eftirvænting komin í hópinn.

Á æfingu í dag var spilaður API en það er leikur þar sem bolta er haldið á lofti og sá sem missir hann fær A og svo framvegis... Þannig þróaðist leikurinn að Fanndís ákvað að fara í annan leik sem heitir „screw your neighbour“ og dúndraði með tilþrifum í Sigga Ragga sem varð til þess að Siggi tapaði leiknum og varð því að leika APA og eftir á þurfti að hringja á vælubílinn. Að hans mati var þetta víst e-ð vafasamt.

En hann lét sig svo hafa það og gerði tilraun til að leika apa. Eitthvað hefur þó líffræðikennsla Sigga Ragga verið ábótavant þar sem að leikþáttur hans minnti helst á mennskan sel. Vakti þetta mikla kátínu meðal hópsins.

Æfingin hófst svo og gekk hún mjög vel. Farið var yfir taktík og fleira fyrir morgundaginn. Eftir æfinguna ákvað Gary Wake að taka grínið frá pistli gærdagsins ennþá lengra og leiddi Siggu Röggu sína út í rútu. Á fundi kvöldsins ákvað Gary að koma með tilkynningu. Hann var alvarlegur í bragði og engu líkara en eitthvað slæmt hefði komið fyrir. Þá tók hann upp bréf sem hann sagði að myndi koma fram á UEFA.com. Tók hann þar hátt og skýrt fram að hans samband við Sigga Ragga þjálfara væri eins og hann orðaði það „stricty on a professional basis“ og það væri ekkert í gangi hjá þeim þrátt fyrir að þeir hefði legið tveir sveittir inni á herbergjum að greina leiki. Má segja að hann hafi þarna náð öllum í hópnum og var mikið hlegið.

Að lokum er okkur mikil ánægja að tilkynna það að heimsókn Sifjar til augnlæknis var vel heppnuð og hún er nú leikfær og til í tuskið á móti Frökkum. Einnig er Guggan okkar miklu betri í öxlinni og var þetta ekki eins alvarlegt eins og á horfðist í fyrstu. Það eru því allar 22 heilar og til í geðveikina á morgun.

Við ætlum okkur sigur og 3 stig á morgun því að EKKERT ER ÓMÖGULEGT!

ÁFRAM ÍSLAND

Bestu kveðjur! Ásta, Katrín Jóns og Rakel Loga.