• mán. 24. ágú. 2009
  • Landslið

Óskabyrjun íslenska liðsins dugði ekki

Marki Hólfríðar gegn Frökkum fagnað
Marki fagnað

Stelpurnar biðu lægri hlut gegn Frökkum í kvöld en þá lék íslenska liðið sinn fyrsta leik í úrslitakeppni EM í Finnlandi.  Lokatölur urðu 3 - 1 Frökkum í vil en í leikhléi var staðan jöfn, 1 - 1. 

Íslenska liðið fékk óskabyrjun í leiknum þegar að Hólmfríður Magnúsdóttir og íslenska liðinu yfir með laglegu skallamarki strax á 6. mínútu.  Eftir laglega sókn komst Margrét Lára upp að endamörkum og sendi fyrir markið þar sem Hólmfríður kom á ferðinni og stangaði boltann í netið.  Frábær byrjun og stuðningsmenn íslenska liðsins létu vel í sér heyra eins og þeir gerðu allan leikinn.

Frakkar komu sér hinsvegar betur inn í leikinn og fengu dæmda vítaspyrnu á 18. mínútu sem að Abily nýtti og jafnaði þar með leikinn.  Fast var leikið í fyrri hálfleiknum og ekkert gefið eftir.  Þannig þurftu tveir leikmenn Frakka að yfirgefa völlinn alblóðugar, í fyrra skiptið skölluðu tveir Frakkar saman en í síðara skiptið skallaði franskur leikmaður og Guðrún Sóley saman en Guðrún Sóley hélt áfram leiknum.

Það voru aðeins 7 mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar að franska liðið fékk sína aðra vítaspyrnu í leiknum og í þetta skiptið var það Bompastor sem að skoraði en Þóra var við það að verja í markinu.  Íslenska liðið náði ekki að skapa sér nógu vænleg marktækifæri í síðari hálfleiknum en útlitið versnaði þegar að Nécib jók muninn með skoti sem Þóra náði ekki að halda.  Stelpurnar gáfstu þó ekki upp og fengu gullið færi á að minnka muninn á 77. mínútu þegar brotið var á Dóru Maríu innan vítateigs og þriðja vítaspyrna leiksins dæmd.  Franski markvörðurinn Bouhaddi sá hinsvegar við Margréti Láru.  Þrátt fyrir mikla baráttu tókst stelpunum ekki að bæta við marki og eftir þriggja mínútna uppbótartíma flautaði rússneski dómarinn til leiksloka og franskur sigur því staðreynd.

Í heildina var þetta sanngjarn sigur Frakka en liðið spilaði vel í leiknum.  Íslenska liðið barðist af miklum dugnaði en heldur ódýr mörk voru of stór biti í þetta skiptið.  Það gerðu einnig íslensku áhorfendurnir í Tampere sem að studdu liðið frá því töluvert fyrir leik og alveg til leiksloka.

Það má búast við ótrúlegri baráttu í næsta leik íslenska liðsins sem verður gegn Norðmönnum í Lahti næstkomandi fimmtudag.  Noregur beið lægri hlut gegn Þjóðverjum fyrr í dag, 0 - 4.  Lokatölurnar segja þó ekki allt því að þrjú mörk Þjóðverja komu í uppbótartíma og Norðmenn fengu gullið marktækifæri á 89. mínútu til þess að jafna leikinn. 

Leikur Íslands og Noregs hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu hjá Ríkissjónvarpinu.  Á morgun verður leikið í C riðli keppninnar en þá mætast England og Ítalía kl. 14:30 og Svíþjóð og Rússland leika kl. 17:00.  Báðir þessir leikir verða einnig sýndir beint hjá Ríkissjónvarpinu.

 

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Íslands gegn Frökkum

 

Sara Björk í hörðum slag

Hart barist í Tampere