• fim. 27. ágú. 2009
  • Landslið

Sárt tap gegn Noregi

Úr leik Íslands og Frakklands í úrslitakeppni EM 2009
ISL FRA EM 2009

Íslensku stelpurnar töpuðu í kvöld gegn Norðmönnum í öðrum leik liðsins í úrslitakeppni EM sem fram fer í Finnlandi.  Lokatölur urðu 0 - 1 og kom sigurmark leiksins á lokasekúndum fyrri hálfleiks.  Úrslitin þýða að íslenska liðið á ekki lengur möguleika á því að komast í átta liða úrslit keppninnar.

Leikurinn byrjaði með látum af hálfu íslenska liðsins og eftir aðeins 15 sekúndur komst Hólmfríður Magnúsdóttir í gott færi en skot hennar smaug naumlega framhjá fjærstönginni.  Yfirhöndin var íslenska liðsins í byrjuninni og á 12. mínútu átti Dóra María Lárusdóttir fyrirgjöf fyrir markið sem hafnaði í innanverðri stönginni og þaðan í gegnum markteiginn en Norðmenn náðu að hreinsa.  Leikurinn jafnaðist eftir þetta og bauð upp á mikla stöðubaráttu en lítið af opnum marktækifærum.  Það var því eins og blaut tuska framan í andlit íslensku leikmannanna þegar að Norðmenn komust yfir á lokasekúndum fyrri hálfleiks.  Cecilie Pedersen snéri þá á íslensku vörnina og skoraði framhjá Þóru í markinu.  Örstuttu síðar flautaði rúmenski dómarinn til leikhlés og forystan var Norðmanna.

Síðari hálfleikur bauð ekki upp á mörg tækifæri þrátt fyrir töluverða sókn íslenska liðsins.  Norðmenn hugsuðu fyrst og fremst að halda fengnum hlut og gekk íslenska liðinu illa að brjóta niður þéttan varnarmúr norska liðsins.  Þegar leið á leikinn og íslenska liðið var farið að þyngja sóknirnar allverulega, fengu Norðmenn nokkrum sinnum ákjósanlega stöðu á vallarhelmingi íslenska liðsins án þess þó að valda Þóru verulegum vandræðum í markinu.  Sara Björk átti gott skot naumlega yfir og Margrét Lára fékk skyndilega boltann á markteig en boltinn skaust frá henni á hálum vellinum en annars voru opin færi ekki mörg.

Það voru því mikil vonbrigði hjá íslensku stelpunum þegar flautað var til leiksloka, tap staðreynd í leik þar sem sigurinn gat fallið hvoru megin sem var.  Íslenska liðið var heldur sterkari aðilinn en náði ekki að skapa sér nógu mörg opin marktækifæri.  Tapið þýðir að íslenska liðið á ekki lengur möguleika á því að komast í 8 liða úrslit keppninnar.  Ísland getur náð þremur stigum, líkt og Noregur og Frakkland hafa nú en mun enda neðar en báðar þessar þjóðir á innbyrðis viðureignum.

Þjóðverjar lögðu Frakka örugglega fyrr í dag með fimm mörkum gegn einu og hafa tryggt sér efsta sæti riðilsins.  Það er því einungis spilað upp á stoltið í lokaleiknum á milli Íslands og Þýskalands en af því er af nógu að taka hjá íslensku stelpunum.