• mið. 06. mar. 2013
  • Landslið

A kvenna - Tap í fyrsta leik á Algarve

Sigurður Ragnar á blaðamannafundi eftir leik gegn Bandaríkjunum á Algarve
Siggi-Raggi-a-blmfundi

Ólympíumeistarar Bandaríkjanna reyndur of stór biti fyrir íslenska liðið þegar þjóðirnar mættust á Algarve í dag.  Lokatölur urðu 3 - 0 fyrir Bandaríkin eftir að markalaust hafði verið í leikhléi.  Jafnræði var með liðunum fyrstu 30 mínútur leiksins en svo tók bandaríska liðið smám saman yfirhöndina og vann að lokum sanngjarnan sigur.

Ýmislegt er samt hægt að taka jákvætt út úr leiknum og íslenska liðið reyndi allan tímann að sækja þó svo að nokkuð lægi á þeim í síðari hálfleik.  Fyrstu tvö mörkin komu með skalla eftir hornspyrnur og það þriðja eftir að sóknarmaður komst inn í sendingu aftur til Þóru í markinu.

Færi íslenska liðsins voru ekki mörg, Harpa Þorsteinsdóttir átti fínan skalla að marki á 18. mínútu en besta færið kom á 81. mínútu þegar Sandra María Jessen komst í gegn eftir góða sendingu frá Rakel Hönnudóttir.  Sandra lék framhjá markverði Bandaríkjanna en sendi boltan svo hárfínt framhjá markinu.

Sara Björk Gunnarsdóttir var fyrirliði liðsins í fjarveru Katrínar Jónsdóttur, sem hvíldi í þessum leik.  Edda Garðarsdóttir lék sinn 98. landsleik en hún lék sinn fyrsta A landsleik árið 1997.

Næsti leikur liðsins á Algarvemótinu er gegn Svíum, föstudaginn 8. mars.  Sá leikur verður sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Eurosport sem margir Íslendingar hafa aðgang að.

Sigurður Ragnar á blaðamannafundi eftir leik gegn Bandaríkjunum á Algarve