• þri. 23. apr. 2013
  • Fræðsla

Leika með rauðar reimar í úrslitaleikjum Lengjubikarsins

Laces Campaign - Rauðar reimar
laces-campaign

Dagana 27. og 28. apríl fara fram fjórir úrslitaleikir í Lengjubikarnum.  Úrslitaleikur A-deildar karla fer fram á laugardag á Samsung-vellinum í Garðabæ og úrslitaleikur A-deildar kvenna fer fram á sama stað á sunnudag.  Á sunnudeginum fara jafnframt úrslitaleikir B- og C-deilda karla.   Allir leikmenn í þeim liðum sem leika til úrslita þessa daga munu leika með rauðar reimar á sínum knattspyrnuskóm til stuðnings Special Olympics á Íslandi.

Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili starfs Special Olympics á Íslandi, en alþjóðasamtök Special Olympics standa að  verkefninu Laces Campaign, sem byggir á sölu á rauðum reimum með merki Special Olympics og er liður í alþjóðlegu verkefni.  Fjölmörg íþróttalið og íþróttafólk úr hinum ýmsu greinum um allan heim hefur stutt verkefnið og tekur Special Olympics á Íslandi nú þátt í fyrsta sinn.

Knattspyrnusamband Íslands hefur í fjölmörg ár stutt við starf Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi, meðal annars vegna Íslandsleika Special Olympics og annarra verkefna sem tengjast knattspyrnu fyrir fólk með þroskahömlun.  Þátttaka og stuðningur KSÍ og félaganna og leikmanna þeirra sem leika til úrslita í Lengjubikarnum við þetta verkefni eflir enn það samstarf.  Það er knattspyrnuhreyfingunni ljúft og skylt að taka þátt og leikmönnum liðanna sönn ánægja að reima skóna sína með rauðum reimum af þessu tilefni.

Special Olympics International (SOI) eru samtök stofnuð af Kennedy fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968.  Meginmarkmið SOI er að gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til þátttöku í íþróttastarfi þar sem allir keppa aðeins við sína jafningja.  Skráðir iðkendur eru um 4 milljónir og stærstu verkefni eru alþjóðaleikar sem haldnir eru fjórða hvert ár.  Þar hafa Íslendingar m.a. keppt í knattspyrnu ásamt fleiri greinum.  

Nánar um Special Olympics:  http://www.ifsport.is/default.asp?yfirf=7&aid=28

Nánari upplýsingar um verkefnið og rauðu reimarnar:

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir

Frksvstj. Fræðslu og útbreiðslusviðs ÍF / Special Olympics á Íslandi

annak@isisport.is  

GSM 8975523

Reimum okkar besta!