• mið. 22. jún. 2016
  • Landslið

EM 2016 - ÍSLAND Í 16-LIÐA ÚRSLIT!

Island - Portugal EM 2016

Ísland er komið í 16-liða úrslit á EM eftir 2-1 sigur á Austurríki. Jón Daði Böðvarsson og Arnór Ingvi Traustason skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Það verður að byrja á að hrósa stuðningsmönnum Íslands en fólk mætti snemma í stúkuna og studdu vel við liðið í upphitun. Leikurinn var varla byrjaður þegar fyrsta færið kom en á 2. mínútu átti Jóhann Berg skot í slá. Á 11. mínútu munaði svo minnstu að Arnatauvic myndi skora en þá misreiknaði Hannes Þór markmaður sig aðeins en sem betur fer náði Arnatauvic ekki að nýta sér mistökin.

Það var svo á 18. mínútu að Ísland komst yfir í leiknum. Eftir langt innkast frá Aroni Gunnari fyrirliða fór boltinn til Selfyssingsins Jóns Daða sem snéri af sér varnarmann og setti boltann laglega í markið. Austurríki hefði getað jafnað metin á 37. mínútu en þá fékk liðið vítaspyrnu eftir að Ari Freyr togaði í Alaba í vítateignum. Dragovic tók vítið en smellti því í stöngina. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir Íslandi.

Austurríkismenn komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og strax á 46. mínútu varði Kári Árnason á línu. Það var svo Allesandro Schöpf sem jafnaði metin en þá náðu Austurríkismenn að komast upp allan völlinn og Schöpf setti boltann í markið. 1-1 á 60. mínútu leiksins. Ísland hafði þurft að verjast nánast allan seinni hálfleikinn og markið lá í loftinu. 

Austurríska liðið var heilt yfir sterkara það sem lifði leiks án þess þó að skapa sér teljandi marktækifæri. Það var á lokamínútu leiksins að Ísland komst í skyndisókn og Arnór Ingi skoraði og tryggði Íslandi 2-1 sigur og þar með sæti í 16-liða úrslitum!