• fim. 07. feb. 2019
  • Mótamál

Tímaflakk í tölfræði KSÍ

Advania hefur bætt við nýrri virkni á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands sem kallast Tímaflakk. Virknin er gullkista fyrir tölfræðinörda í fótboltaheiminum.

Gagnagrunnur KSÍ er mjög umfangsmikill og þar má meðal annars nálgast upplýsingar um fótboltaleiki frá árinu 1912. Knattspyrnusamband Íslands setti í loftið nýja heimasíðu í fyrra sem Advania smíðaði. Á henni hafði aðgengi að tölfræðiupplýsingum úr gagnagrunni KSÍ verið stórbætt.

Nú hefur Advania bætt nýrri virkni inn á heimasíðu KSÍ sem kallast Tímaflakk og gerir notendum kleift að skoða stigatöflur í öllum deildum langt aftur í tímann með myndrænum hætti. Með einfaldri flettingu er hægt að sjá hvernig staðan í deildinni breytist eftir hverja umferð.

Til að skoða tímaflakk aðgerðina þá smellir þú á hlekkinn "Tímaflakk" í stöðutöflu hvers móts.

Advania er einn af bakhjörlum KSÍ og samstarfsaðili sambandsins í upplýsingatækni.