• fös. 22. mar. 2019
  • Mótamál

Miðasöluapp fyrir leiki í Pepsi Max og Inkasso-deildum

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli KSÍ, ÍTF og Pez ehf. um smíði og þróun apps með upplýsinga- og miðasölulausn sem hægt er að nýta fyrir leiki í efstu tveimur deildum karla og kvenna - Pepsi Max deildum og Inkasso-deildum.  Appið snýr að leikjadagskrá liða, viðburðum, ýmsum öðrum upplýsingum og tilkynningum - sem og miðasölu á leiki, sölu ársmiða, birtingu á aðgönguskírteinum KSÍ og þess háttar.

Með appinu er leitast við að auka verulega þjónustu við áhugafólk um íslenska knattspyrnu, auka samskiptin milli félaganna og stuðningsmanna, og auðvelda og einfalda verulega miðakaup á leiki deildanna.  Í markaðsrannsókn sem KSÍ lét vinna haustið 2018 kom m.a. vel í ljós að stór hluti áhugafólks um íslenska knattspyrnu hefði áhuga á að nota app til að fylgjast með og fá upplýsingar um leiki, auk þess að nota app eða aðra rafræna leið til að kaupa miða á leikina.  Umrætt upplýsinga- og miðasöluapp er svar við þeirri niðurstöðu.  Í appinu mun hver notandi geta sniðið viðmótið eftir sínu höfði og merkt það með litum og merki síns félags.

Appið sjálft, virkni þess og eiginleikar, verður kynnt nánar síðar, en áætlað er að það verði tilbúið til notkunar um miðjan apríl.