• lau. 08. jún. 2019
  • Landslið
  • A karla

A karla - 1-0 sigur gegn Albaníu

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland vann góðan 1-0 sigur gegn Albaníu í undankeppni EM 2020. Það var Jóhann Berg Guðmundsson sem skoraði mark Íslands í fyrri hálfleik.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með og átti Albanía fyrsta færi leiksins strax fjórðu mínútu. Elseid Hysaj átti þá skot fyrir utan teig sem Hannes Þór Halldórsson varði vel í marki Íslands. Bæði lið héldu boltanum ágætlega sín á milli, en þó án þess að skapa sér opin færi.

Það var svo á 22. mínútu sem fyrsta markið kom. Birkir Bjarnason átti þá sendingu á Jóhann Berg á miðjum vallarhelmingi Albana. Hann tók boltann, fór framhjá tveimur varnarmönnum Albana og setti boltann í markið. Frábært mark í alla staði.

Átta mínútum síðar var það Kári Árnason sem var nálægt því að tvöfalda forystu Íslands. Boltinn barst þá inn á teig til Arons Einars Gunnarssonar. Hann kom honum þvert fyrir markið á Kára, en skot hans fór yfir markið. 

Ísland var nokkuð sterkari aðilinn undir lok fyrri hálfleiks, en tókst ekki að auka forystu sína. Albanía fékk aukaspyrnu á hættulegum stað rétt fyrir utan teiginn stuttu áður en flautað var til hálfleiks, en spyrnan fór í vegginn. Staðan því 1-0 fyrir Íslandi í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði fremur rólega og náði hvorugt lið að skapa sér opin færi. Fyrsta skipting Íslands kom á 56. mínútu þegar Arnór Ingvi Traustason kom inn á í stað Jóhanns Bergs. Jafnfræði var áfram með liðunum og héldu þau bæði ágætlega boltanum þegar þeim gafst færi á því.

Á 65. mínútu gerði Erik Hamren aðra skiptingu og kom Kolbeinn Sigþórsson inn á fyrir Viðar Örn Kjartansson. Stuttu síðar átti Gylfi Sigurðsson góða aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Albana sem Kári var mjög nálægt því að komast í.

Á 82. mínútu kom Arnór Sigurðsson inn á fyrir Rúnar Má Sigurjónsson. Sjö mínútum síðar Átti Ari Freyr Skúlason skot á markið af löngu færi, en boltinn fór beint á markvörð Albana.

Undir lok uppbótartíma átti Arnór góðan sprett upp kantinn, kom boltanum fyrir markið á Kolbein en Etrit Berisha varði frábærlega. Þetta var síðasta færi leiksins og 1-0 sigur staðreynd.

Ísland mætir næst Tyrklandi á þriðjudaginn kl. 18:45 á Laugardalsvelli!

Förum saman á EM 2020!